Ísak Bergmann Jóhannesson var í gær kallaður inn í A-landsliðshóp Íslands í knattspyrnu, ásamt þremur öðrum leikmönnum úr U-21 árs landsliði Íslands. Ísak hefur tekið þátt í fyrstu tveimur leikjum U-21 árs landsliðs Íslands í úrslitum Evrópumótsins í Ungverjalandi, hann var í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum og kom inn á sem varmaður í öðrum leik liðsins.
A-landslið Íslands mætir liði Liechtenstein á miðvikudagskvöld en liðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni HM 2022. Ísak hefur tekið þátt í einum A-landsleik, gegn Englendingum á Wembley í Þjóðardeild UEFA.
Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, og Sveinn Aron Guðjohnsen verða einnig með A-landsliðinu í leiknum gegn Liechtenstein og hafa þeir einnig lokið þátttöku sinni með U-21 árs liðinu.
Leikur Íslands og Liectenstein fer fram í Vadus á miðvikudagskvöldið.