Kristín gagnrýnir Akraneskaupstað harðlega í pistli og sjónvarpsviðtali – „fjárhagslegt ofbeldi“

Kristín Þórðardóttir gagnrýnir Akraneskaupstað harðlega í pistli sem hún birti á fésbókarsíðu sinni – og einnig í viðtali í sjónvarpsviðtali á Fréttavaktinni á Hringbraut.

Í pistlinum og viðtalinu rekur Kristín ýmis mál sem tengjast syni hennar, Roberto Benedikt Redondo, sem er býr í úrræði fyrir fatlað fólk á vegum sveitarfélagsins Akraneskaupstaðar. Kristín segir í pistli sínum að hinn 27 ára gamli Roberto hafi búið við fjárhagslegt ofbeldi af hálfu Akraneskaupstaðar og þetta ástand hafi verið til staðar í rúmlega átta ár. Roberto er einhverfur og með alvarlega þroskahömlun.

Pistill Kristínar er hér fyrir neðan í heild sinni. Þar kemur m.a. fram að Roberto fái aðstoðarfólk til sín á kvöldin til að elda fyrir sig mat en kostnaður sveitarfélagsins í því að útvega aðstoðarfólkinu mat eru rúmar 363 krónur og hefur lítið sem ekkert hækkað. Hanni þarf því sjálfur að greiða mat fyrir aðstoðarfólkið.

„Alveg sama hvað við höfum gert þá kemur sveitarfélagið ekki á móts við hann og hefur ekki sýnt neina tilburði til þess að reyna að rétta hans hlut,“ segir Kristm.a. ín í viðtalinu á Hringbraut

Sjónvarpsviðtalið er hér og frétt Hrinbrautar:

Ég hef ákveðið að opinbera það fjárhagsofbeldi sem Akraneskaupstaður beitir son minn Roberto, sem býr í úrræði á vegum sveitarfélagsins Akraneskaupstaðar og hefur nú gert í að verða rúm 8 ár.  

Roberto hefur nú frá september 2012 ( í 8 og hálft ár) greitt fæði þeirra aðstoðarmanna sem hann hefur haft hjá sér hverju sinni og jafnvel fæði tveggja starfsmanna þegar hann býður vini í mat sem líka hefur starfsmann.
Sveitarfélagið ákvað eftir mjög mikið og einhverra ára þref, að endurgreiða honum rétt um 363 krónur pr máltíð, sem eru vísitölureiknað til dagsins í dag rétt rúmlega um 400 krónur í dag pr máltíð veitta. Sú upphæð var fundin í kjarasamningi ársins 2011, úr grein sem var undir „Fæðispeningar“ en er skilmerkilega skýrð sem fjárhæð sem átti að greiða til að bæta starfsfólki þá daga sem þeir kæmust ekki í hádegismat eða matsal á milli kl 10-14 hvern dag, og hefur ekkert með endurgreiðslu útlagðs fæðiskostnaðar að gera.

Sonur minn er ekki starfsmaður sveitarfélagsins sem kemst ekki í matsal milli kl 10-14.
Heima hjá honum er aldrei verið að bjóða þessu fólki hafragraut eða létta súpu, við erum að tala um fullbúna kvöldmáltíð, heimilismat, steikur og stórsteikur um helgar og svo eru þá ótalin þau skipti sem hann hefur greitt fyrir mat og drykki aðstoðarfólksins á veitingastöðum.

Akraneskaupstaður skuldar syni mínum það fæði sem hann hefur greitt aftur til 15 september 2012, og hefur þrátt fyrir miklar bréfaskriftir og fundi, með fyrrum bæjarstjóra, (núverandi bæjarstjóri hefur engan áhuga sýnt á málinu) samskipti við ráðuneyti, fund með fyrrum Velferðarráðherra, vinnu lögfræðinga, samskipti við Umboðsmann Alþingis og nú síðast Úrskurð frá Úrskurðarnefnd Velferðarmála, ekki látið sér segjast og heldur áfram að draga lappirnar í því að endurgreiða honum þetta fæði sem þeir sannanlega skulda honum.
Akraneskaupstaður ber því endalaust fyrir sig að ráðuneytið hafi ekki einhver viðmið handa þeim, svo ég ætla í leiðinni að spyrja Akraneskaupstað, hvaða viðmið þeir hafi og hvert þeir sæki viðmið sín til að rukka fyrir sínar eigin máltíðir ?
Hver segir þeim hvað hún á að kosta ?
Þeirra máltíð kostar í dag 1287.-kr og sérstaklega er tekið fram að 1123.-kr af því sé hráefniskostnaður.
Það má gera ráð fyrir því að sveitarfélagið fái sitt hráefni ódýrara en sonur minn, og jafnframt má fastlega gera ráð fyrir að nýtingin sé betri hjá sveitarfélaginu en heima hjá syni mínum (algjörlega að öllu hans starfsfólki ólöstuðu).
Tekið af síðu Akraneskaupstaðar;
„Gjald fyrir heimsendingu matar er kr. 1.287,- sem skiptist þannig:
Matur (hráefniskostnaður)
kr. 1.123
Heimsendingarkostnaður
kr. 164“

Á sunnudaginn bauð hann vini sínum í mat, hann saknaði hans því hann hafði verið í burtu nokkurn tíma og hann langaði að þeir hefðu góða máltíð, spjall og gaman.
Vinurinn er líka með starfsmann svo sonur minn hélt þar uppi tveimur starfsmönnum sveitarfélagsins á fæði, læri og meðlæti sem sveitarfélagið mun endurgreiða honum rétt um 800 krónur fyrir.
Ef skólabörn þyrftu að sjá kennurum sínum fyrir mat, þá væri nú eitthvað farið að hitna í kolunum.
Ef ungt fólk þyrfti að greiða matinn fyrir aðstoðarmenn foreldra sinna á dvalarheimili, þá væri nú eitthvað búið að gera.

Á sama tíma og þetta er að gerast þá er skömm sveitarfélagsins og stjórnenda þess áþreifanleg.
Sonur minn fær að fara eina ferð í mánuði til Reykjavíkur í skemmtiferð og notar til þess bifreið frá sveitarfélaginu sem ætti að falla undir liðinn, „ferðaþjónusta fatlaðra“ sem á að vera til í hverju sveitarfélagi, en á Akranesi kostar það jafn mikið og að taka bílaleigubíl og fyrir eina ferð til Reykjavíkur greiðir hann tæplega 7000 krónur (búið að reyna aðrar leiðir sem því miður henta ekki) .

Ég sem móðir, hef svo neitað að greiða fyrir notkun bílsins á meðan sveitarfélagið dregur lappirnar í að endurgreiða syni mínum þennan fæðiskostnað og þá senda þeir reikningana hans ítrekað í MOTUS og hafa áður hundelt hann til að láta innheimta þá, senda honum ítrekanir og innheimtuviðvaranir og sýna styrk sinn gagnvart skjólstæðing sínum.

Á meðan þetta rúllar og Akraneskaupstaður níðist fjárhagslega á syni mínum með samþykki allra sem sveitarfélaginu stjórna, þá veit ég fyrir víst að enginn þessara sömu stjórnenda situr eftir með útlagðan kostnað á svo litlu sem einum bensínlíter sem ekki hefur verið ríflega endurgreiddur.
Ég spurði mig einhverntímann að því ;

„Hvernig verður maður minniháttar stjórnandi ?“
Ég veit svarið.