Íbúum á Akranesi heldur áfram að fjölga – lítilsháttar fólksfækkun á Vesturlandi

Íbúum á Akranesi fjölgaði um 40 á tímabilinu frá 1. desember til 1. apríl. Á Akranesi búa í dag alls 7.705 einstaklingar en í byrjun desember voru íbúar á Akranesi 7.665. Þann 1. desember 2019 voru íbúar á Akranesi 7.533.

Til samanburðar þá fjölgaði Íbúum Reykjavíkurborgar um 528 á tímabilinu frá 1. desember 2020 til 1. apríl sl. og íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði um 31 á sama tímabili. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Þegar horft er til alls landsins þá hefur íbúum Árneshrepps fjölgað hlutfallslega mest síðastliðna fjóra mánuði eða um 10% en íbúum þar fjölgaði þó einungis um 4 íbúa. Næst kemur Helgafellssveit með
7,7% fjölgun sem er líkt og með Árneshrepp lítilsháttar fjölgun í hausum talið eða um 5 íbúa.

Íbúum fækkaði hlutfallslega mest í Ásahreppi um 5,8% og Skaftárhreppi um 4,9%. Þá fækkaði íbúum í 35 sveitarfélögum af 69 á ofangreindu tímabili.

Lítilsháttar fækkun varð á Vesturlandi, Austurlandi og Norðurlandi vestra. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 0,5% eða um 1.118 íbúa. Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði einnig um 0,5% eða um 34 íbúa.

Hér er skrá yfir fjölda íbúa eftir sveitafélögum og samanburð við íbúatölur frá 1. desember 2019 og 2020.