Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi, hefur ákveðið að leggja atvinnuferilinn í golfi á hilluna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Valdís Þóra sendi frá sér í dag. Þar kemur fram að erfið meiðsli sem hún hafi átt við undanfarin misseri hafi gert það að verkum að hún sá sér ekki fært um að halda áfram sem atvinnukylfingur. „Líkamleg og andleg heilsa mín skiptir mig einfaldlega meira máli en íþróttin er farin að gera,“ segir Valdís m.a. í yfirlýsingunni sem er hér fyrir neðan.
Valdís Þóra, sem er 31 árs að aldri, hefur á undanförnum árum verið með keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu í atvinnugolfi kvenna, LET Evrópumótaröðinni. Hún hefur þrívegis sigrað á Íslandsmótinu í golfi (2009, 2012 og 2017) og árið 2010 varð hún Íslandsmeistari í holukeppni.
Besti árangur Valdísar Þóru á LET Evrópumótaröðinni er þriðja sæti en hún hefur tvívegis endað í þriðja sæti á sterkustu mótaröð Evrópu. Það er jafnframt besti árangur sem íslenskur atvinnukylfingur hefur náð á atvinnumótaröð í efsta styrkleikaflokki. Hún var einnig í liði Íslands á Evrópumóti atvinnukylfinga sem sigraði á því móti í Glasgow í Skotlandi árið 2018. Í kjölfarið var liðið útnefnt sem lið ársins 2018 í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna.
Valdís Þóra var fyrsti atvinnukylfingurinn frá Íslandi sem náði að komast inn á Opna bandaríska atvinnumótið – en það gerði hún árið 2017.
Valdís Þóra starfar sem afreksstjóri hjá Golfklúbbnum Leyni og mun hún halda áfram í því starfi í heimabænum Akranesi. Hún hefur alls sjö sinnum verið efst í kjörinu á Íþróttamanni Akraness – oftast allra.
Þá er kominn sá tími að ég hef ákveðið að leggja atvinnuferilinn á hilluna. Það liggja margar ástæður að baki en sú stærsta er að líkaminn þolir ekki mikið meira. Eftir höfðinu dansa limirnir og þeir hafa gert það undanfarin þrjú ár. Þrjú ár af stanslausum sársauka sem ég náði að harka í gegnum vegna keppnisskaps, þrjósku og metnaðar. En nú er mál að linni. Ég hef ákveðið að hlusta á líkamann og segja þetta gott. Síðastliðna 4 mánuði hef ég fengið 15 sterasprautur í bakið og búið er að fara inn í taugar og gefa þeim rafstuð en í hvert sinn sem ég byrja að sveifla af fullum krafti aftur hafa verkirnir blossað upp af sama krafti. Síðasta trompið sem við áttum eftir var að brenna taugaenda af, og hefur það verið gert á fjórum taugum en enn eru eftir tvær. Þetta eru mikil inngrip í líkamann, sársaukafull og erfið. Líkamleg og andleg heilsa mín skiptir mig einfaldlega meira máli en íþróttin er farin að gera.
Golf hefur kennt mér alveg ofboðslega mikið. Þolinmæði, samkennd, virðingu. Ég hef upplifað mikla gleði og mikla sorg. Stundum á sama tíma. Ég náði kannski ekki öllum þeim markmiðum sem ég hefði viljað en ég komst á sama tíma á staði og mót sem voru fjarlægur draumur ungrar stúlku. Ég geng sátt frá borði, fékk að upplifa ótrúleg ferðalög, kynnast frábæru fólki og eignast vini um allan heim sem vonandi verða vinir mínir til frambúðar.
Ég vil þakka allan stuðninginn sem ég hef fengið í gegnum árin. Hjartans þakkir til þjálfara minna, Hlyns Geirs og Karls Ómars sem stóðu þétt við bakið á mér í gegnum allt þetta ferli. Líka þegar ég átti það ekki skilið. Kærar þakkir til Tómas Freys, íþróttasálfræðings, sem hjálpaði mér að kljást við allan skalann af tilfinningum. Bestu þakkir til fjölskyldu minnar og vina sem alltaf trúðu á mig, rifu mig upp og héldu mér á jörðinni þegar ég þurfti á því að halda. Allir mínir styrktaraðilar í gegnum árin, takk innilega. Án ykkar hefði ég aldrei getað farið þessa vegferð í lífinu og náð þessum árangri. Stefán sjúkraþjálfari, Philipa sjúkraþjálfari, Bergur kírópraktor og styrktarþjálfarar mínir í gegnum árin sem öll hafa unnið með og í kringum mín vandamál, kærar þakkir fyrir ykkar framlag. Og til ykkar allra sem hafið stutt mig og fylgst með mér, kærar þakkir.
Golf hefur verið mitt líf og yndi allan sólarhringinn í svo mörg ár. Ég hef fórnað og gefið allt sem ég átti í þetta. Nú taka við nýjir tímar. Þeir eru spennandi, stressandi og ögrandi allt á sama tíma. Vonandi einn daginn mun ég getað spilað golf aftur mér til gamans. Þangað til mun ég miðla reynslu minni til næstu kynslóðar og vonandi hjálpa þeim að komast jafn langt og ég og lengra. Og vonandi takið þið manneskjunni Valdísi Þóru opnum örmum, ég held ég sé alveg ágæt.
Bestu kveðjur, Valdís Þóra Jónsdóttir