Unnið er að því að finna arftaka fyrir gamla körfubíl slökkviliðsins

Skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar hefur lagt það til við bæjarráð að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun 2021 um kaup á körfubíl fyrir slökkvilið Akraness – og Hvalfjarðarsveitar.

Á síðasta fundi bæjarráðs kom fram að ráðið telur brýnt að nauðsynlegur tækjabúnaðar sé til staðar hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar og fól ráðið bæjarstjóra að vinna málið áfram í samstarfi við Hvalfjarðarsveit, sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og slökkviliðsstjóra.

Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri, segir í samtali við Skagafréttir að körfubíll slökkvliðs Akranes – og Hvalfjarðarsveitar sem hafi verið í notkun frá árinu 2001 sé nú ekki lengur til staðar á Akranesi – en unnið sé að kaupum á nýjum bíl sem taki við hlutverki eldri bíla.

„Enn sem komið er hefur ekkið verið tekin ákvörðun um val á bíl en það er í vinnslu. Það eru tveir kostir í stöðunni, að láta smíða nýjan bíl eða kaupa nýlegan notaðan bíl,“ segir Jens Heiðar.

Slökkviliðsstjórinn segir ennfremur að miklar tækniframfarir hafi átt sér stað á þessu sviði.

„Stigabílar eru í dag algengari en körfubílar sem björgunartæki. Við erum því að skoða alla þá möguleika sem eru í boði. Nýr bíll kemur til með að kosta um 110 milljónir kr. en þetta er fjárfesting til 20-25 ára. Það er ekki mikið framboð af nýlegum notuðum bílum af þessari tegund – en slík lausn býður upp á skemmri afhendingatíma. Þetta verkefni er í ferli og tekur einhvern tíma að fá niðurstöðu,“ bætir Jens Heiðar við.