Kvennalið ÍA í knattspyrnu undirbýr sig af krafti fyrir komandi keppnistímabil í næstu efstu deild Íslandsmótsins – Lengjudeildinni. Búist er við því að keppni hefjist í byrjun maí.
Nýverið samdi félagið við bandarískan leikmann sem mun leika með ÍA út tímabilið 2021. Leikmaðurinn heitir Dana Scheriff og er henni ætlað að skora mörk fyrir ÍA sem framherji.
Scheriff hefur leikið með háskólaliðinu Monmouth Hawks og er þetta í fyrsta sinn sem hún reynir fyrir sér sem atvinnuleikmaður í Evrópu. Á háskólaferli sínum skoraði Scheriff alls 14 mörk í 78 leikjum og gaf hún 10 stoðsendingar. Hún var byrjunarliðsleikmaður á síðustu tveimur árum sínum í skólanum .
ÍA endaði í áttunda sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð en alls eru tíu lið í deildinni. Árið 2019 endaði ÍA einnig í áttunda sæti en árið 2018 var liðið í baráttu um að komast í efstu deild og náði þar þriðja sætinu.
Kvennalið ÍA var dregið úr keppni í efstu deild árið 2001 eftir að hafa verið í fremstu röð í efstu deild um margra ára skeið. Frá þeim tíma hefur liðið þrívegis komist upp í efstu deild, 2005, 2014 og 2016 – en liðinu tókst ekki að halda sæti sínu í deild þeirra bestu í öll þrjú skiptin.