Í skoðun að hefja markaðsherferð fyrir Akranes sem góðan kost til búsetu

Á síðasta fundi bæjarráðs voru hugmyndir að markaðsherferð fyrir Akraness kynntar. Á fundinum voru þrír fulltrúar frá fyrirtækinu Tjarnargötu. Á fundinum kynntu þau hugmyndir fyrirtækisins að markaðsherferð fyrir Akranes þar sem að kostir bæjarfélagsins fyrir búsetu og atvinnuuppbyggingu væri rauði þráðurinn í markaðsherferðinni.

Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra var falið að vinna að frekari úrvinnslu málsins. Sævar Freyr segir í samtali við Skagafréttir að ekki hafi verið tekin ákvörðun hvort af þessu verkefni verði.

„Við fórum yfir skemmtilega útfærslu á markaðssetningu á Akranesi sem við höfum verið að skoða í samstarfi við þessa aðila. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort af verkefninu verður en það mun ráðast af því hvort m.a. byggingaverktakar hafa áhuga á samstarfi um hugmyndina. Hún verður kynnt fyrir þeim á næstunni,“ segir Sævar Freyr.