Ólafur kaupir Reykjavíkur Apótek af Högum

Skagamaðurinn Ólafur Adolfsson hefur keypt Reykjavíkur Apótek við Seljaveg. Ólafur stofnaði sjálfur lyfjaverslunina árið 2009 en árið 2019 keypti Hagar 90% hlut Ólafs. Í frétt á visir.is frá því í dag kemur fram að Ólafur hafi nú keypt aftur 90 prósenta hlut apóteksins sem seldur var til Haga árið 2019.

Ólafur hefur rekið Apótek Vesturlands á Akranesi frá árinu 2007 og hann á einnig Apótek Ólafsvíkur.

Hagar höfðu það sem markmið að opna fleiri lyfjaverslanir undir merkjum Reykjavíkur Apóteks – en fyrirtækið ákvað í október 2020 að hætta rekstri lyfjaverslana.

„Ég er mjög glaður með kaupin og við hjá Reykjavíkur Apóteki hlökkum til að þjónusta áfram okkar tryggu viðskiptavini, sem margir hverjir hafa fylgt okkur allt frá stofnun félagsins. Samkeppni er hörð á smásölumarkaði lyfja og þá er gott að hafa reynslumikið starfsfólk sem þekkir mikilvægi góðrar þjónustu og það kunna viðskiptavinir okkar sannarlega vel að meta. Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli og ég hef notið samstarfsins með Högum en hlakka þó til að einbeita mér aftur að kjarnastarfseminni hér á Seljaveginum,“ segir Ólafur í samtali við Visir.is.