Umsóknarfrestur um sérstaka íþrótta – og tómstundastyrki framlengdur til loka júlí

Velferðar- og mannréttindaráð Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum í gær að framlengja umsóknarfrest um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki til loka júlí á þessu ári. Um er að ræða styrki fyrir börn á tekjulágum heimilum.

Slíkir styrkir eru á meðal aðgerða stjórnvalda vegna Covid-19 faraldursins. Hægt er að sækja um til sveitarfélaga vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna. Styrkurinn er veittur vegna barna sem eru fædd á árunum 2005-2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr á mánuði á tímabilinu mars-júlí 2020. Styrkurinn er allt að 45.000 kr fyrir hvert barn.

Stýrihópur félagsmálaráðuneytisins um þátttöku barna af efnaminni heimilum í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hafði áður samþykkt að framlengja umsóknarfrest um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki til 31. júlí 2021.

Í reglum Akraneskaupstaðar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum kemur fram í 1. grein að umsóknir skulu berast fyrir 15. apríl 2021. Sviðsstjóri velferðar – og mannréttindaráðs leggur til að breyting verði gerð á 1. grein þess efnis að umsóknarfrestur verði framlengdur til 31. júlí 2021.