Nemendur FVA og MB láta ljós sitt skína í Nýsköpunarsetrinu á Breiðinni

Á undanförnum misserum hefur Fjölbrautaskóli Vesturlands boðið nemendum upp á áhugaverðan valkost í smiðju sem er með tæki og tól sem nemendur geta búið til nánast hvað sem er. Um er að ræða smiðju sem kallast Fab Lab (Fabrication Laboratory).

Áfanginn kallast FABL2GR05 og þessu námi gefst nemendum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Heiðar Mar Björnsson kennir áfangann og hefur hópurinn verið með aðstöðu í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg í vetur. Þessa dagana hafa starfsmenn unnið að því að flytja búnaðinn í rúmgott húsnæði í Nýsköpunarsetrinu á Breiðinni.

Í tilkynningu á vef FVA kemur fram að í nýja húsnæðinu verður frábær aðstaða til sköpunar og hugmyndir geta orðið að veruleika. Nemendur FVA litu nýverið við í nýju aðstöðunni að taka út svæðið og leggja sitt af mörkum í að setja upp vinnusvæðið.

Fab Lab er fyrir allt Vesturland og eru nemendur í FSN og MB velkomnir. Áfanginn verður aftur í boði í haust, skráning hjá áfangastjóra – [email protected]