Ný grunnsýning á Byggðasafninu í Görðum var formlega opnuð fimmtudaginn 13. maí 2021. Sýningin ber nafnið „Lífið til sjós, í landi, í vinnu og í leik“ og um næstu helgi verður frítt inn fyrir þá sem vilja kynna sér þessa sýningu nánar. Margar hendur hafa komið að uppsetningu sýningarinnar – en vinnan hefur staðið yfir allt frá árinu 2016.
Valgerður Guðrún Halldórsdóttir var verkefnastjóri sýningarinnar á árunum 2017 – 2019 og Ella María Gunnarsdóttir síðar við því hlutverki. Sýningarstjórn og sýningarhönnun á höndum Valgerðar og Sara Hjördís Blöndal vann samhliða Valgerði og tók svo alfarið við þegar Valgerður flutti sig um set í lok árs 2018. Jón Allansson, Nanna Þóra Áskelsdóttir og Guðmundur Sigurðsson, starfsmenn safnsins komu að verkefninu með ýmsum hætti svo sem við heimildaöflun, efnisöflun, val ljósmynda, munavörslu, forvörslu, smíðar, eldsmíði og margt fleira.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi, Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar og Ólafur Páll Gunnarsson formaður menningar- og safnanefndar klipptu á borða við opnun sýningarinnar.
Ólafur Páll sagði frá nýju sýningunni sem unnið hefur verið að frá árinu 2016 og liggur mikill metnaður og faglegt starf þar að baki. Hljómsveitin Travel tunes sem hjónin Valgerður og Þórður skipa slógu á létta strengi rétt áður en sýningin var formlega opnuð.
Boðsgestir fengu tækifæri á að nota nýja hljóðleiðsögn sem safnið býður nú upp á.
Eldsmiðir voru störfum fyrir utan og stóð gestum einnig til boða að skoða uppgerð íbúðarhús á útisvæði safnsins.
Það var af tilefni 60 ára afmælis safnsins sem ákveðið var að endurnýja grunnsýningu þess en safnið var stofnað þann 13. desember árið 1959. Söfn gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu sem þau starfa í sem felst meðal annars í því að halda utan um og miðla sögu samfélagsins.
Í sýningunni er lögð áhersla á að endurspegla þá sérstöðu sem starfsvæði safnsins býr yfir en safnið er í eigu Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar. Efnistökum er skipt upp í einstök þemu sem eru: Lífið til sjós, lífið í landi, ferðalangar, lífið í vinnu og lífið í leik.
Sýningin er sett fram í nútímalegri umgjörð og með fjölbreyttum hætti. Segja má að ljósmyndir, kvikmyndir, hljóð og hljóðleiðsögn gegni aðalhlutverkum auk safngripa sem eru valdir af kostgæfni. Hljóðleiðsögnin nær til fjörutíu og þriggja frásagna og er í boði bæði á ensku og íslensku. Auk þess er víða í sýningunni fatnaður sem gestir mega handfjatla og máta, skúffur til að opna, snertiskjásýning og nýja krakkabingó sem börnum gefst tækifæri á að reyna við.
Í sýningarhúsnæðinu eru jafnframt kvikmyndarými og sérsýningarrými sem gefa safninu kost á því að vera með fjölbreytni í sýningarhaldi til framtíðar.
Í dag eru tvær heimildarmyndir um Akranes í sýningu, önnur þeirra er frá árinu 1947 og hin frá 1974.
Í sérsýningarrýminu er sýning Kolbrúnar Kjarval leirlistakonu og bæjarlistamanns Akraness árið 2017, HVAÐ EF. Með nýrri sýningu og breytingu á sýningarhúsnæði er unnið að því að gera safnið að fróðlegum og áhugaverðum stað heim að sækja.
Vonir standa til þess að sýningin höfði til breiðs hóps íbúar og gesta þannig að þau verði tíðir gestir safnsins. Þá má jafnframt taka fram að sérstök áhersla hefur verið lögð á að gera sýninguna aðgengilega öllum. Má þar sérstaklega nefna að gert er ráð fyrir hjólastólaaðgengi og lausnum fyrir þá gesti sem hafa takmarkanir varðandi sjón og heyrn.
Áður en hægt var að hefjast handa við uppsetningu sýningar þurfti að pakka eldri sýningu niður, mála allt húsæði að innan sem utan, endurgera salerni, betrumbæta rafmagn, endurnýja glugga og brunavarnir, sinna ýmiskonar viðhaldsverkefnum og ófyrirséðum uppákomum.
Byggðasafnið opnar þann 15. maí næstkomandi og verður sérstök opnunarhelgi þar sem aðgangseyrir verður ókeypis og eru íbúar Akraness og Hvalfjarðarsveitar sérstaklega hvattir til að gera sér ferð á safnið. Opið er alla daga frá kl. 10:00 til 17:00 til 15. september næstkomandi.
Ritstjórn textagerðar var skipuð Ellu Maríu Gunnarsdóttur, Jóni Allanssyni og Söru Hjördísi Blöndal. Ritstjórnarstörf fólust í mótun efnislegs innihalds sýningartexta og hljóðleiðsagnar sem og lokaútgáfu allra texta á ensku. Sigurbjörg Þrastardóttir samdi lokaútgáfur á íslenskum sýningartexta og hljóðleiðsögn.
Svokallaður söguhópur var starfandi á verkefnatímanum en hópurinn var ráðgefandi varðandi efnistök og þemu sýningarinnar. Hópinn skipuðu Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Gunnlaugsson, Petrína Ottesen og Heiðar Mar Björnsson.
Öll grafík í sýningunni er unnin af Bjarna Helgasyni. Teikningar af Hallgrími Péturssyni og Guðríði Símonardóttur eru unnar af Jóni Ágústi Pálmasyni. Umsjón með tæknimálum og kvikmyndum var á höndum Heiðars Mars Björnssonar.
Þulur í hljóðleiðsögn er Þorvaldur Davíð Kristjánsson en aðrir sem koma fram í stökum hljóðleiðsagnarfrásögnum eru: Sigrún Edda Björnsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Þórey Sigþórsdóttir, Baldur Einarsson, Arnaldur Halldórsson og Ylfa Blöndal Egilsdóttir.
Fjölmargir aðrir komu að verkefninu með einum eða öðrum hætti og ógerlegt er að nefna þá alla með nafni en öllum þeim sem komu að sýningunni með einum eða öðrum hætti eru færðar bestu þakkir.