Fiskur í veislubúningi frá Helgu slær alltaf í gegn

„Ég valdi þennan rétt til að deila með lesendum og er uppskriftin er frá móður minni en hún kenndi heimilisfræði í Brekkubæjarskóla í rúm 30 ár. Þessi uppskrift er mjög góð og litrík og hentar vel fyrir heimilið og veisluna. Ég hef m.a. haft þennan fiskrétt í saumaklúbbum og vinkonur mínar elda hann fyrir sitt fólk enda finnst öllum hann góður. Rétturinn er hollur, einfaldur, ferskur, litríkur og mjög bragðgóður,“ segir Helga Atladóttir sem er meistarakokkur vikunnar í fréttaflokknum „Heilseflandi samfélag“ þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

Markmiðið með þessum fréttaflokki er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

Helga fékk áskorun frá Brynjari fjallavini sínum en heilsa og hollusta eru málefni sem eru henni hugleikinn. Helga er 46 ára og menntaður sem hjúkrunarfræðingur og starfar hún sem deildarstjóri á öldrunarlækningadeild á Landspítala.

„Heilsa og hollusta eru málefni sem eru mér hugleikin. Ég vil því nota þetta tækifæri og hvetja til almennrar hreyfingar og hollra lifnaðarhátta,það er aldrei of seint að byrja frekar gæti verið of seint að byrja ekki. Ráðleggingar um hreyfingu frá Lýðheilsustöð Landlæknisembættis kveða um að börn og unglingar eigi að hreyfa sig í 60 mínútur daglega og allir aðrir í 30 mínútur á hverjum degi. 

Hreyfing eykur vellíðan okkar og lengir líf okkar. Ég sjálf er mikil útivistarmanneskja og hef gengið á mörg fjöll og hef gaman af hlaupum,“ segir Helga sem skorar á Elísabetu Ragnarsdóttur sjúkraþjálfara á Höfða að taka við keflinu. 

Fiskur í veislubúningi

500 g þorskhnakkar

hveiti til að velta fiskbitunum upp úr

½ laukur

½ rauð paprika söxuð

½ græn paprika söxuð

¼ dós ananas, smátt skorinn

½ askja smurostur með kryddblöndu

1 dl rjómi

½ tsk salt

½ tsk sítrónupipar

1 msk karrý

½ grænmetis eða fisk-teningur

olía til að steikja upp úr

Aðferð:

Skerið fiskinn í bita, veltið honum upp úr hveiti og léttsteikið

Leggið fiskinn í eldfast mót

Steikið smátt skorið grænmetið á pönnu þar til það er orðið mjúkt

bætið ananasbitum út í, smurosti, rjóma og kryddi, hrærið vel saman þar til osturinn er bráðnaður.

Hellið sósunni yfir fiskinn og setjið í 200 gráðu heitan ofn og bakið réttinn í 20 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og salati. Gott er að hafa sósuna frekar í þykkara lagi.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/04/14/barnvaena-villibradin-slaer-alltaf-i-gegn/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/03/19/arilius-kann-ymislegt-fyrir-ser-i-eldhusinu-kjullarettur-sem-slaer-i-gegn-hja-krokkunum/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/02/10/taelenski-kjuklingaretturinn-slaer-alltaf-i-gegn-maturinn-tharf-ad-vera-litrikur/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/01/18/glaesibaejarlax-thar-sem-ad-england-thumall-og-geirmundur-koma-vid-sogu/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/12/03/thessi-rettur-nytur-alltaf-somu-vinsaelda-hja-fjolskyldu-gudmundar/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/11/16/forrettindi-ad-eiga-alltaf-fisk-i-frystikistunni-inga-dora-skorar-a-gudmund-pal/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/10/02/hollur-fiskrettur-astthors-nytur-vinsaelda-a-heimilinu-hollasta-matvara-sem-vol-er-a/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/04/14/barnvaena-villibradin-slaer-alltaf-i-gegn/