Uppbygging vistvænna iðngarða mun hefjast í Flóahverfi á Akranesi en að verkefninu standa Akraneskaupstaður og fyrirtækið Merkjaklöpp ehf. Samstarfs- og markaðssamningur Akraneskaupstaðar og Merkjaklappar var undirritaður nýverið. Akraneskaupstaður mun næstu mánuði vinna frekar að útfærslu vistvænna iðngarða og hvaða þjónusta verður skilgreind á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akraneskaupstaðar.
Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og heildrænni nálgun við uppbyggingu iðnaðarsvæða, með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi.
Merkjaklöpp ehf. er fyrirtæki á Akranesi sem hefur látið til sín taka að undanförnu í þessum málum en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa í samvinnu með Runólfi Sigurðssyni hjá Al-hönnun ehf. unnið að hönnun og skipulagi atvinnuhúsnæða í Flóahverfi. Alexander Eiríksson er framkvæmdastjóri félagsins og Guðmundur Sveinn Einarsson er stjórnarformaður.
Fyrrgreindur samningur felur í sér að Merkjaklöpp ehf. fær sex lóðir á svæðinu til markaðssetningar sem forsvarsmenn félagsins koma til með að nýta til bygginga á atvinnuhúsnæði í takt við vistvæna iðngarða í samvinnu við þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í verkefninu.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið á vefsvæðunum; www.merkjaklopp.is og www.300akranes.is