Hollenskur leikmaður til liðs við karlalið ÍA í PepsiMax deildinni


Knattspyrnufélag Akraness hefur samið við þaulreyndan varnarmann frá Hollandi en framundan er hörð barátta hjá liðinu að halda sæti sínu í deild þeirra bestu í PepsiMax deild karla.

Í gær gerði ÍA 2-2 jafntefli gegn Keflavík á Norðurálsvellinum. ÍA situr á botni deildarinnar með 6 stig líkt og HK sem er eina liðið sem ÍA hefur lagt að velli í fyrstu 10 umferðum Íslandsmótsins 2021.

Leikmaðurinn heitir Wout Droste og er samningurinn til rúmlega eins árs eða út næsta tímabil, 2022.

Í tilkynningu frá ÍA kemur fram að Wout Droste sé reynslumikill leikmaður sem spilað hefur 350 leiki í Hollandi og þar af eru 122 leikir í efstu deild. Einnig á hann 7 leiki fyrir hollenska U19 ára landsliðið.

Wout er 32 ára en samkvæmt upplýsingum á veraldarvefnum leikur hann í stöðu hægri bakvarðar.