„Skallablettir“ frá Akranesi náðu áhugaverðum árangri í utandeildinni


Knattspyrnuliðið Skallablettir frá Akranesi náði áhugaverðum árangri í utandeildarkeppni á dögunum. Utandeildarkeppnir hafa vaxið gríðarlega á undanförnum misserum. Alls voru 8 lið sem tóku þátt í þessari deild þar sem að lið Skallabletta endaði í 5. sæti í riðlakeppninni en í úrslitakeppninni fór liðið á kostum.

Árni Þórir Heiðarsson margmiðlunarstjóri liðsins segir að liðið sé að mestu skipað leikmönnum sem voru á sínum tíma við nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

„Liðið er samsett úr nokkrum vinahópum. Nemendur úr iðngreinum og bókmenntagreinum í FVA. Okkur vantaði bara eitthvað að gera í sumar og settum því þetta lið í gang. Haukur Stefán, stofnandi félagsins, rakst á auglýsingu um „bumbuboltadeild“ og síðan rúllaði þetta bara af stað. Við pöntuðum búninga og fengum stuðning frá Telnet og Steðja til að fjármagna búningakaupin – takk fyrir aðstoðina,“ segir Árni Þórir þegar hann var inntur eftir því hvernig liðið var stofnað.

Hann bætir því við að það sé afar skemmtilegt að vera í slíku liði þar sem að aðaláherslan er að hafa gaman.

„Það skemmtilegasta við þetta er að hitta gamla vini með reglulegu millibili. Við erum með tvær æfingar í viku og síðan er einn leikdagur. Það var aldrei markmiðið að vinna – bara að hafa gaman og fíflast aðeins. Áhuginn á slíkum liðum er gríðarlegur. Það er fullt af fólki heima hjá sér á öllum aldri sem elskar fótbolta en er ekki að æfa lengur. Nú hafa gamlir vinir tækifæri til þess að gera eitthvað saman og þetta var tækifæri sem við létum ekki fara framhjá okkur. Áhuginn er mikill t.d. á samfélagsmiðlum og við erum með yfir 300 manns sem eru að fylgjast með því hvað við erum að gera á Instagram.“

Árni Þórir segir að Orri Hermannsson hafi verið sannur fyrirliði í sumar og dregið liðið áfram þegar mest á reyndi.

Hann Orri mætti alltaf á æfingar og leiki brosandi og mjög einbeittur. Hann helsti eiginleiki, sem sker hann frá öðrum í liðinu, er að Orri rífur aldrei neinn niður. Hann byggir upp fólkið í kringum sig og sér það besta sem það hefur upp á að bjóða.“

Árni Þórir segir að lokum að leikurinn gegn Spörtu hafi verið hápunktur sumarsins.

„Sparta er annað lið frá Akranesi sem samanstendur aðallega af leikmönnum sem eru fæddir árið 1998. Við þekkjum þá alla mjög vel enda tökum við oft æfingarleiki gegn þeim. Við töpuðum fyrsta leiknum gegn þeim en sem betur fer unnum við þá í 8 liða úrslitum,“ segir Árni Þórir en á þeim tíma höfðu Skallablettir fengið liðsstyrk með leikmönnum úr 2. flokki ÍA og Kára.

„Í undanúrslitum kepptum við gegn vetrarmeisturum Boladeildarinnar fór leikurinn í vítaspyrnukeppni þar sem spennan var í hámarki en við unnum hana 3-2,“ sagði Árni Þórir.