Aðsend grein frá Sævari Jónssyni
Ég sest hérna niður til að hripa niður nokkur orð varðandi þá fyrirætlan bæjaryfirvalda að byggja hérna í garðinum hjá mér og nágrönnum mínum 600 m2 íbúðarkjarna fyrir fólk með fötlun. Húsinu er ætluð staðsetning á grænu svæði á milli hverfa hérna í Jörundarholti og það er áætlað að húsið sjálft verði um 600 m2 en að svæðið allt sem fari undir bygginguna verð um 2000 m2. Þetta er risastórt hús!
Við skulum aðeins setja þetta í samhengi. Það er ekki óvarlega áætlað að grunnur undir slíkt hús verði ca 17m x 35m að stærð og dýpt á holu yrði þá um ca 3m það gera þá ca 1.785 m3 af efni sem þarf að fara úr og í holuna, það er fyrir utan það efni sem þarf að taka úr og setja í vegna lóðarinnar, gefum okkur að það séu um 200 m2 það væru þá 600 m3 í viðbót, samtals yrðu þá þetta um 2.300 m3 af efni sem þyrfti að flytja úr og í þennan grunn, þetta er gríðarlega mikið efni.
Ef við gefum okkur að hver vörubíll taki u.þ.b. 12 m3 þá eru þetta um 200 ferðir af fullhlöðnum vörubílum sem eiga að keyra um göturnar hérna hjá okkur (og við vitum hvernig þær eru). Þegar búið er að grafa upp úr slíkri holu er óumflýjanlegt að garðar í næsta nágrenni og þá sérstaklega þeir sem standa fyrir ofan munu síga.
Gefum okkur að húsið verði staðsteypt sem er ekki óhugsandi, þá erum við að tala um að ca 90 steypubílar munu einnig keyra hérna um okkar þröngu götu.
Byggingartíminn er áætlaður 1-2 ár sem auðvitað myndi hafa í för með sér ótrúlegt ónæði fyrir okkur sem búum hérna í hverfinu.
Mig langar aðeins að koma inn þeirri staðreynd að allt þetta mál er mjög skrítið, það lyktar af örvæntingu en það kemur fyrst fram auglýsing í héraðsblaðinu okkar Skessuhorni 20. júlí sl. og að athugasemdafrestur sé um 3 vikur frá þeirri dagsetningu. Það vill nú svo skemmtilega til að þetta er akkúrat sá tími þar sem flestir eru í sumarfríi og búast síst við slíkum fréttum frá okkar bæjarfulltrúum. Til að toppa þetta þá var auglýstur kynningarfundur um málið með eins og hálfs sólahrings fyrirvara og að sá fundur myndi verða í hádegi á fimmtudegi og að athugasemdir þyrftu að koma skriflega, það er auðvitað mjög einkennilegt. Ég sjálfur var staddur í veiði og þurfti að fylgjast með fundinum í síma á bakkanum og gat ekki sett inn neinar spurningar.
Á þessum fundi voru embættismenn ásamt bæjarfulltrúm Akraness. Ég hjó eftir því sérstaklega að skipulagsfulltrúi Akraneskaupstaðar talaði um að þetta væri í áætlum Akraneskaupstaðar um þéttingu byggðar, þétting byggðar hefst yfirleitt ekki í úthverfum! Þétting byggðar hefst fyrst og fremst í miðbæjum og þar sem þjónusta er. Ef skipulagsfulltrúi þarf aðstoð mína til þess að finna þá fjölmörgu reiti sem þarf að þétta í og við okkar miðsvæði þá er ég tilbúinn hvenær sem er í þá vinnu. Hún talaði einnig um að Akranes væri landlítið sveitarfélag, það finnst mér reyndar skrítið og þá sérstkalega eftir að hafa séð viðtal við okkar ágæta bæjarstjóra í Fréttablaðinu nú í liðinni viku þar sem hann talaði um að á Akranesi væri nóg til af lóðum og að innviðir okkar þyldu íbúafjölda upp að 10.000 manns. Þá er kannski rétt að benda á þá staðreynd að Akraneskaupstaður á land alla leið inn að Berjadalsá þannig að nóg er plássið ef út í það er farið.
Nú ætla ég að snúa mér að bæjarfulltrúm okkar þeim Ragnari Sæmundssyni (Framsókn) og Einari Brandssyni, (Sjálfstæðisflokki). Þessir tveir virðast hafa sérstakan áhuga á skipulagsmálum og velferð íbúa og grænna svæða. Það er nefnilega þannig að þetta fyrirhugaða hús á að koma á það græna svæði sem börn okkar og barnabörn nota til leiks, það á að koma þar sem fóboltavöllurinn er.
Þessir tveir bæjarfulltrúar hafa verið að skrifast á vegna breytingar á skipulagi í Skógarhverfi, hverfi sem er í uppbyggingu og er langt frá því að vera full uppbyggt annað en Jörundarholtið sem hefur verið full uppbyggt í nærri 30 ár.
Þann 29.07. 2020. Skrifar Einar Brandsson grein og og Ragnar svarar Einari í annarri grein sem kemur þann 21.08.2020. Mig langar að taka úr þessum greinum nokkur orð sem þessir ágætu menn skrifa um skipulagsmál og það er gott að vita af þessum baráttumönnum okkar íbúa.
Einar skrifar þann 29.07 í grein sem heitir „Skipulagsslysfarir í Skógarhverfi:“
„Það er ört vaxandi pólitískur ósiður að nýta sumarleyfistíma til óvinsælla og illa ígrundaðra verka. Slík vinnubrögð afhjúpa um leið veikburða pólitíska forystu.“ Hann skrifar einnig í sömu grein: „Ég hvet bæjarbúa til þess að láta í sér heyra vegna þessa máls. Vekja fulltrúa meirihlutans og gera þeim ljóst að ekki sé við hæfi að fórna framtíðarmöguleikum svæðisins á altari skammtímahagsmuna í byggingu örfárra íbúða sem auðveldlega má með betri vinnubrögðum finna annan stað. Látum ekki læða inn enn einu skipulagsslysinu á Akranesi. Af þeim eigum við nóg.“
Bæjarfulltrúi Ragnar Sæmundsson svarar Einari þann 21.08.2020 í grein sem heitir „Skýr framtíðarsýn í Skógarhverfi:“ „Það sem bæjarfulltrúi Einar kallar „græna bleðla hér og þar“ í grein sinni, er einmitt ein af megináherslum skipulagsbreytinganna. Göngu- og hjólastígar sem þvera hverfið og tengja saman við aðra hluta Skógahverfisins. Stígur sem gerir leik- og grunnskólabörnum kleift að fara beint af skólalóð og upp í Garðalund án þess að þurfa að ganga í umferð.“ Þarna er augljóst að Ragnar hefur velferð grænna svæða í huga og er það frábært enda hefur það verið okkar áhugamál til margra ára að kláraður verði göngu- og hjólastígur með fallegum gróðri og bekkjum sem myndi tengja saman Grundirnar og skógræktina.
Einar er ekki hættur og heldur áfram í grein sem kemur þann 02.09.2020 í grein sem heitir „Skammvin framtíðarsýn“. Þar skrifar Einar einmitt þessi orð sem vert er að hafa í huga: „Verðmætasta verkfæri við stjórn sveitarfélags er framtíðarsýnin. Skipulagsmál er besta dæmið um slíkt. Þar mega menn ekki tjalda til einnar nætur. Íbúar sem ráðast í húsbyggingu gera það með gildandi skipulag í huga og með þá trú að þar sé horft til lengri tíma.“
Þetta er akkúrat málið, við sem hérna í Jörundarholti höfum byggt upp hús og grætt garða og lóðir höfum hingað til getað treyst því að hér verði skipulagi ekki breytt nema þá kannski klárað í þá veru að hér verði grænt svæði til framtíðar.
Að lokum þá langar mig að segja til ykkar sem stýrið bænum okkar, þið eruð kjörin af okkur, það erum við sem kjósum ykkur til góðra verka og treystum á að þið ráðist ekki freklega á okkar nágrenni. Við treystum á að þið haldið bæjarbúum samhentum. Ef af þessum breytingum verður mun það hafa veruleg áhrif á tíðaranda okkar í Jörundarholti og ekki viljum við kljúfa þann anda sem ríkir í þessu hægláta og góða hverfi.