ÍA leikur til úrslita í Bikarkeppni KSÍ í 2. flokki kvenna – kærumál í undanúrslitum gegn FH

Kvennalið ÍA í 2. flokki tryggði sér í gær sæti í úrslitaleik Bikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands með 3-0 sigri á útivelli í undanúrslitum gegn sameiginlegu liði Selfoss/Hamars/Ægis/KFr.

Úrslitaleikurinn fer fram 24. september og þar verður lið Breiðabliks/Augnabliks mótherji ÍA.

Samkvæmt gögnum á heimasíðu KSÍ hefur ÍA leikið þrívegis til úrslita í Bikarkeppni KSÍ í 2. flokki kvenna frá árinu 2000. Í fyrsta skiptið árið 2004 og í annað sinn árið 2013. Árið 2014 lék ÍA til úrslita þegar liðið var í samvinnu við Þrótt úr Reykjavík og þar fagnaði ÍA/Þróttur sigri.

Leið ÍA í úrslitaleikinn var áhugaverð þar sem að kærumál var tekið fyrir af dómstól KSÍ.

FH var mótherji ÍA í átta liða úrslitum og fór sá leikur fram þann 11. júlí s.l. Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn 1-1 en í stað þess að fara í framlengingu var strax farið í vítakeppni. Þar hafði FH betur. Í aðdraganda leiksins áttu þjálfarar beggja liða áttu samtal fyrir leik þar sem ákveðið var að ef leikurinn færi í framlengingu þá væri farið beint í vítaspyrnukeppni, þar voru bæði lið sammála að sú leið væri farinn. Þegar sú staða kemur upp þá ákveður dómari að samþykkja það að sleppa framlengingu og fara beint í vítaspyrnukeppni.

Framkvæmd leiksins var kærð af hálfu ÍA og komst dómstóll KSÍ að þeirri niðurstöðu að liðin þyrftu að mætast að nýju þann 15. ágúst þar sem að leika þyrfti framlenginguna. Ekkert mark var skorað í framlengingunni og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem að ÍA hafði betur.

Lesa má nánar um úrskurðinn hér.