Eitt þingsæti færist úr NV-kjördæmi í SV-kjördæmi í næstu alþingiskosningum

Í næstu alþingiskosningum færist eitt þingsæti úr Norðvesturkjördæmi yfir í Suðvesturkjördæmi, í samræmi við íbúaþróun. Þingsætin verða sjö í norðvestri og fjórtán í suðvestri.

Stefán Ingi Valdimarsson, ráðgjafi Landskjörstjórnar, segir í samtali við RÚV að litlu hafi munað að þessi breyting yrði gerð fyrir nýafstaðnar kosningar.


„Eftir hverjar kosningar þarf samkvæmt lögum að reikna út hversu mikið misræmi er milli atkvæða, það er hversu margir kjósendur eru á bakvið hvert þingsæti í kjördæminu. Ef það fer yfir tvo þá er gerð leiðrétting sem tekur þá gildi í næstu kosningum á eftir,“ útskýrir Stefán.

Síðustu tvennar kosningar hafa verið átta þingsæti í Norðvesturkjördæmi og þrettán í Suðvesturkjördæmi.

„Þá var hægt að reikna að misvægið var 1,99, undir tveimur þannig að því var ekki breytt. Íbúaþróunin hefur verið þannig að fjölgunin hefur verið langmest í Suðvesturkjördæmi og það er bara þróun sem hefur verið i gangi og hefur haldið áfram og eftir þessar kosningar er misvægið orðið meira en tveir. Og nú þarf að breyta, til þess að leiðrétta þetta, þá verða sjö þingmenn í Norðvesturkjördæmi og fjórtán í Suðvesturkjördæmi. En það tekur þá gildi í næstu kosningum,“ segir Stefán.