„Það er löngu orðið tímabært að hittast og slá á létta strengi“ – Stuðningsmenn ÍA með upphitun fyrir stórleikinn gegn Keflavík

Það er mikið um að vera um næstu helgi hjá Knattspyrnufélagi ÍA þegar liðið fær Keflavík í heimsókn í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ.

ÍA og Keflavík áttust við í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar um s.l. helgi í eftirminnilegum leik þar sem að ÍA tryggði sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu á Íslandi með mögnuðum 3-2 sigri eftir að hafa lent 2-0 undir.

Það er því mikil stemning í herbúðum ÍA þessa stundina og það tækifæri ætla að forsvarsmenn félagsins að grípa með því að halda upphitunarkvöld fyrir stuðningsmenn föstudagskvöldið 1. október á Garðavöllum – nýju frístundamiðstöðinni við golfvöllinn.

„Það er löngu orðið tímabært að hittast og slá á létta strengi. Miðaverð á upphitun Skagamanna er kr. 6.000.- en innifalið er kvöldmatur og frábær skemmtiatriði og að sjálfsögðu eru léttar veitingar til sölu. Ég skora á stuðningsmenn ÍA nær og fjær að sýna samstöðu og hita vel upp fyrir undanúrslitaleikinn gegn Keflavík,“ segir Hlini Baldursson verkefna – og skrifstofustjóri KFÍA við skagafrettir.is en hann biður áhugasama að senda tölvupóst á [email protected] til að skrá sig til leiks á upphitunarkvöldið.