Hilmar Örn er nýr organisti við Akraneskirkju

Hilmar Örn Agnarsson tók nýverið við starfi organista í Akraneskirkju. Hilmar Örn er ráðinn til eins árs en Sveinn Arnar Sæmundsson er í ársleyfi. Þetta kemur fram á vef Akraneskirkju.

Hilmar Örn hefur áður verið organisti í Skáholtsdómskirkju á árunum 1991 til loka árs 2008, þar stjórnaði hann öflugu tónlistarlífi og kórastarfi. Í upphafi árs 2009 var hann ráðinn organisti Kristskirkju í Landakoti, síðustu ár hefur hann starfað sem organisti og kórstjóri í Grafarvogskirkju.

Í frétt á vef Akraneskirkju kemur fram að Hilmar Örn mun stjórna Kór Akraneskirkju og er hann þegar byrjaður að vinna að metnaðarfullri dagskrá. Hilmar Örn er boðinn velkominn til starfa um leið og Sveini Arnari er þakkað fyrir gott samstarf og honum óskað velfarnaðar á nýjum stað.