Stefnir á að verða stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands, óháð þyngd og aldri

„Ég keppti á mínu fyrsta kraftlyftingamóti fyrir rúmum tveimur árum síðan. Ég er því hæstánægður með árangurinn á þessu móti og það er nóg framundan. Norðurlandamót unglinga í Finnlandi í byrjun nóvember og vonandi Reykjavíkurleikar í lok janúar á næsta ári,“ segir Skagamaðurinn Alexander Örn Kárason sem náði frábærum árangri á Heimsmeistaramóti unglinga í klassískum kraftlyftingum á dögunum.

Alexander Örn, sem er fæddur árið 1998, setti alls fimm Íslandsmet á HM og landaði silfurverðlaunum í bekkpressu – sem er áhugaverður árangur miðað við hversu skammur tími er liðinn frá því að hann hóf að keppa í kraftlyftingum.

„Ég var mikið í fótbolta á yngri árum með ÍA og ég lék um tíma með Kára. Ég ákvað að hvíla mig á fótboltanum og þá fór ég að leita mér að einhverju til að keppa í sem tengdist líkamsrækt.

Ég prófaði og reyndi fyrir mér í Crossfit og Fitness. Það var skemmtilegt en ekki eins heillandi og kraftlyftingarnar.

Það sem mér fannst leiðinlegast við Fitness sportið var að borað sama þurra fæðið í marga vikur í senn. Ég komst að því að ég elska mat mun meira en árangurinn úr keppnunum – þannig að ég mun ekki fara í fitness bransann aftur,“ segir Alexander.

Hann bætir því við að áhugi hans á kraftlyftingum hafi kviknað af krafti þegar hann áttaði sig á því hversu miklum þyngdum hann var að lyfta á æfingum í líkamsræktarsalnum.

„Ég sá að ég var ekki langt frá Íslandsmetum miðað við þær þyngdir sem ég hafði lyft í líkamsræktinni. Ég ákvað bara að hella mér af krafti í þessa íþrótt. Í dag er ég margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi.

Næsta skref er að gera enn betur og ná toppnum á öllum stigum kraftlyftinga. Það er markmið hjá mér að verða stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands, óháð þyngd og aldri.

Það er bara spurning um tíma hvenær ég næ því markmiði,“ segir Alexander Örn sem stundar meistaranám í lífeindafræði en hann lauk Bsc. prófi úr því fagi frá Háskóla Íslands s.l. vor. Skagamaðurinn sterki starfar í rannsóknarkjarnanum í Fossvogi samhliða meistaranáminu.

Árangur Alexanders á HM unglinga

Keppendur fengu þrjár tilraunir í hverri grein. Alexander gerði 7 af alls 9 lyftum gildar. Hann lyfti samanlagt 710 kg. sem er 2,5 kg. bæting á hans besta árangri. Sá árangur er Íslandsmet í samanlögðu í -93 kg. flokki í unglingaflokki. Alexander lyfti 257.5 kg. í hnébeygju sem er Íslandsmet í -93 kg opnum flokki og unglingaflokki. Að lokum lyfti hann 190 kg. í bekkpressu sem er Íslandsmet í -93 kg. unglingaflokki.

Hann endaði í 12. sæti af alls 19 keppendum.

Hnébeygja: 227.5 kg. – 245 kg. – 257.5 kg.
Bekkpressa: 170 kg. – 180 kg. – 190 kg.
Réttstöðulyfta: 262.5 kg. – 280 kg. ❌ – 280 kg. ❌

Ættartréð:

Foreldrar Alexanders eru Elín Björk Davíðsdóttir og Kári Steinn Reynisson.
Systkini Alexander eru Arnar Már Kárason (2002) og Sara Björk Káradóttir (2018).

Alexander lék knattspyrnu með ÍA og Kára
áður en hann fór að rífa í lóðinn af krafti.
Alexander Örn í bekkpressukeppni á Reykjavíkurleikjunum.
Það sem mér fannst leiðinlegast við Fitness sportið var að borað sama þurra fæðið í marga vikur í senn. Ég komst að því að ég elska mat mun meira en árangurinn úr keppnunum – þannig að ég mun ekki fara í fitness bransann aftur,“ segir Alexander.
Alexander Örn í fagnar hér árangri sínum á Reykjavíkurleikjunum.
Alexander Örn stundar meistaranám í lífeindafræði en hann lauk Bsc. prófi úr því fagi frá Háskóla Íslands s.l. vor. Skagamaðurinn sterki starfar í rannsóknarkjarnanum í Fossvogi samhliða meistaranáminu. Steinar Bragi Gunnarsson vinur Alexanders er einnig í sama námi.