Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum dögum birt áhugaverða sögumola um úrslitaleiki ÍA í bikarkeppni karla í knattspyrnu á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð. ÍA og Víkingar úr Reykjavík eigast við í úrslitum laugardaginn 16. október á Laugardalsvelli og er þetta í 20. sinn sem ÍA leikur til úrslita í karlaflokki í bikarkeppni KSÍ.
Hér er 4. hluti af þessari samantekt þeirra feðga.
Nú er bikarinn kominn heim.
Kampakátir Akurnesingar fagna sigrum í bikarkeppni KSÍ
Við höldum áfram yfirferð okkar um úrslitaleiki í bikarkeppni KSÍ sem ÍA liðið lék fyrr á árum. Að þessu sinni tökum við fyrir fjóra leiki sem leiknir voru á árum 1982-1986. Þetta var sannkölluð bikarár Skagamanna og auk þess á vinna fjóra bikartitla á þessum tíma urðu þeir einnig Íslandsmeistarar i 1983 og 1984 og því tvöfaldir meistarar bæði árin. Slíkt hefur hvorki fyrr né síðar gerst í íslenskri knattspyrnu. Allir fjórir bikarleikirnir unnust með sömu markatölu 2-1 sem segir að hart hafi verið barist og mikið þurft til að landa sigri.
Skoðum þessa leiki aðeins nánar.
1982: ÍA – Keflavík
Betra liðið varð bikarmeistari, það fór ekki á milli mála
ÍA lék gegn Keflavík 29.ágúst 1982 á Laugardalsvellinum og vann leikinn 2-1 í hörkuspennandi úrslitaleik. „Sannkallaður bikarleikur þar sem spenna og barátta var í algleymingi frá upphafi til enda og til að krydda allt saman, hörkugóð knattspyrnutilþrif beggja liða oft og tíðum. Betra liðið vann, á þvi getur varla verið vafi. Ef aðeins er miðað við marktækifæri hefðu Skagamenn þess vegna getað unnið stærri sigur“ var skrifað í einu dagblaðana eftir leikinn. En Suðurnesjamennirnir börðust grimmilega og áttu sín augnablik og spretti. ÍA varð þarna bikarmeistari í annað skipti í tíunda úrslitaleik liðsins. Sigþór Ómarsson og Árni Sveinsson skoruðu mörk ÍA.
Áhorfendur á leiknum voru um 4.000.
1983: ÍA – ÍBV
Eyjamenn réðu ekki við tíu Skagamenn
ÍA lék gegn ÍBV 28.ágúst 1983 á Laugardalsvellinum. Þessi úrslitaleikur var sannarlega hápunkturinn á knattspyrnutímabilinu, enda leikur beggja liða með eindæmum líflegur og góður. ÍA varði titil sinn með 2-1 sigri eftir framlengdan leik, þrátt fyrir að leika einum færri lokakaflann. Sigurmarkið kom eftir að leikið hafið verið í 118 mín og 37 sekúndur. Frá fyrstu til síðustu mínútu ríkti mikil spenna og aldrei kom dauður kafli í leikinn. Það er óhætt aö fullyrða að sjaldan eða aldrei fyrr hefur ríkt önnur eins stemmning hjá áhorfendum í stúkunni. Sannkölluð bikarstemmning og stuðningsmenn beggja liða sannarlega vel með á nótunum allan. En þó mátti varla á milli sjá hvort liðið myndi hreppa sigurinn, svo jafn var leikurinn. ÍA vann því bæði deild og bikar í fyrsta skipti. Hörður Jóhannesson og Sveinbjörn Hákonarson skoruðu mörk ÍA.
Áhorfendur á leiknum voru 5.152.
1984: ÍA – Fram
Heppinn hershöfðingi er góður hershöfðingi
ÍA lék gegn Fram 26.ágúst 1984 á
Laugardalsvellinum. ÍA sigraði 2-1 og varð bikarmeistri þriðja árið í röð. Skagamenn höfðu heppni með sér þessum leik. Fram var aðeins 176 sek. frá bikarsigri, en þá náðu Skagamenn að tryggja sér jafntefli, 1-1 með marki frá Guðbirni Tryggvasyni.
Framlengja þurfti því leikinn og sigurmarkið kom strax eftir 32 sek. af framlengingunni. Árni Sveinsson þrumaði knettinum í netið eftir snarpa sókn. Þegar Skagamenn tóku við bikarnum fyrir framan hina 3.675 áhorfendur komu ummæli Napóleons, fyrrum Frakklandskeisara, upp í hugann:
„Heppinn hershöföingi er góður hershöfðingi, var sagt í einu dagblaðanna. Fram var lengst af betra liðið á vellinum, en Skagamenn ómarkvissir, en nýttu færi sín og sýndu þá seiglu sem einkennir sigurlið ár eftir ár, þau gefast ekki upp þó á móti blási.
1986: ÍA – Fram
Töframátturinn í skóm Péturs Péturssonar dugði til að vinna Fram
Lék gegn Fram 31.ágúst 1983 á Laugardalsvellinum. Skagamenn unnu Fram 2:1 í fjörugum og skemmtilegum úrslitaleik að viðstöddum 4.486 áhorfendum. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik, en Pétur Ormslev kom Fram yfir í byrjun seinni hálfleiks.
Við viljum boltann í mark,“ sungu æstir stuðningsmenn Skagamanna í stúkunni og þeim varð að ósk sinni þegar Pétur Pétursson jafnaði þegar tæpar 20 mínútur voru til leiksloka og hann skoraði svo sigurmarkið á síðustu sekúndum leiksins.
„Vindurinn tók boltann í fyrirgjöf Árna Sveinssonar og hann lenti beint fyrir framan fæturna á mér. Ég gat ekki annað en skorað,“ sagði hetja bikarúrslitaleiks í knattspyrnu Pétur Pétursson að leik loknum. „Við viljum bikarinn heim,“ kyrjuðu áhangendur Skagamanna nánast allan leikinn og þegar leik lauk voru þeir orðnir bikarmeistarar í fjórða skipti á fimm árum.