Á Sigurslóð – skemmtilegir sögumolar um bikarúrslitaleiki ÍA – 6. hluti

Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum dögum birt áhugaverða sögumola um úrslitaleiki ÍA í bikarkeppni karla í knattspyrnu á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð. ÍA og Víkingar úr Reykjavík eigast við í úrslitum laugardaginn 16. október á Laugardalsvelli og er þetta í 20. sinn sem ÍA leikur til úrslita í karlaflokki í bikarkeppni KSÍ.

Hér er 6. hluti og sá síðasti í bili allavega af þessari samantekt þeirra feðga.

Í upprifjun okkar um bikarúrslitaleiki ÍA höfum við stiklað á stóru um þessa 19 leiki og rifjað upp sitthvað sem þar gerðist. Nú kemur síðasti pistilinn þegar við rifjum upp síðasta bikarsigur árið 2003. Vissulega er orðin langur tími frá þessum leik og því er það ánægjuefni að liðið skuli á ný vera í úrslitum og þeim fylgja góðar óskir í leikinn með von um að sigur vinnist.

2003: ÍA – FH

Enn bætist í bikarsafnið á Skaganum

ÍA lék gegn FH 27.september 2003 á Laugardalsvellinum. Níundi bikarmeistaratitillinn bættist í safn Akurnesinga á laugardaginn þegar þeir unnu verðskuldaðan sigur á FH-ingum, 1:0, í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli að viðstöddum 4.723 áhorfendum.

Garðar Gunnlaugsson skoraði markið sem gerði útslagið þegar 12 mínútur voru til leiksloka og rak þar með endahnútinn á frábæran lokasprett ÍA á keppnistímabilinu. Eftir harðlífi framan af sumri þar sem þeir gulu og glöðu sátu um skeið í fallsæti úrvalsdeildarinnar hafa þeir verið ósigrandi í ágúst og september – sjö sigrar og eitt jafntefli í síðustu átta leikjum.

„Við höfðum meiri vilja til að sigra og ætluðum að fara út á völl og njóta dagsins eins og menn“, sagði Ólafur Þórðarson, þjálfari ÍA, eftir að bikarinn var kominn í höfn,. „Við höfðum meiri vilja til að sigra, þessi titill veltur á því og við sýndum það frá fyrstu mínútu.

Við spáðum ekkert í hefð og slíkt, þessir strákar þekkja þetta allt saman og menn vinna ekkert á hefðinni, hún getur hjálpað eitthvað til að taka stressið úr manni en þegar í leikinn er komið vinnur sá sem gefur meira í leikinn. Akurnesingar tóku að vanda vel á móti bikarmeisturunum sínum þegar þeir komu heim með bikarinn síðdegis á laugardaginn. Þrátt fyrir leiðinlegt veður biðu hátt í eitt þúsund manns eftir hetjunum á Akratorgi þar sem Skagamenn fagna jafnan Íslands- og bikarmeisturum sínum. Eftir hefðbundnar móttökur og ræðuhöld á torginu bauð bæjarstjórn Akraness leikmönnunum og aðstandendum í kvöldverð og bæjarbúar fögnuðu sigrinum vel og lengi.