Myndasyrpa: Akurnesingar gulir og glaðir í geggjaðri stemningu á Laugardalsvelli

ÍA og Víkingur áttust við í dag í úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ í karlaflokki í knattspyrnu.

Þetta er í fyrsta sinn sem liðin eigast við í úrslitum bikarkeppninnar. Víkingar höfðu betur 3-0 og fögnuðu bikarmeistaratitlinum í þriðja sinn. Staðan var 2-0 í hálfleik en Skagamenn náðu fínum köflum í leiknum og fengu góð færi til þess að skora. Undir lok leiksins skoruðu Víkingar þriðja markið og gulltryggðu sigurinn.

Víkingar eru einnig Íslandsmeistarar og eru því tvöfaldir meistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

ÍA og KR hafa fjórum sinnum afrekað að vinna tvöfalt á sama tímabilinu en Víkingur er fimmta félagið sem nær þessum árangri. Valur og ÍBV hafa einnig unnið tvöfalt á sama tímabilinu.

KR, 1961
KR, 1963
Valur, 1976
ÍA, 1983
ÍA, 1984
ÍA, 1993
ÍA, 1996
ÍBV, 1998
KR, 1999
KR, 2011
Víkingur, 2021

Gríðarleg stemning var hjá stuðningsmönnum ÍA – fyrir leik, á meðan leiknum stóð og eftir leik.

Hér má sjá myndasyrpu frá Laugardalsvelli – myndir skagafrettir.is.