Hallbera Guðný í lykilhlutverki í frábærum sigri gegn Tékklandi í undankeppni HM 2023

Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir var í lykilhlutverki hjá íslenska A-landsliði kvenna í glæsilegum 4-0 sigri liðsins gegn Tékklandi í undankeppni HM 2023 í knattspyrnu í gærkvöld.

Leikurinn fór fram á Laugardalsvelli og var þetta fyrsti sigur Íslands í C-riðli. Ísland hefur leikið 2 leiki í riðlinum en næsti leikur er gegn Kýpur á þriðjudaginn á Laugardalsvelli.

Hallbera Guðný lék að venju í stöðu vinstri bakvarðar og var þetta 121 leikur hennar fyrir A-landsliðið. Hallbera Guðný, sem er 34 ára og leikur með AIK í Svíþjóð, er nú í fjórða sæti yfir leikjahæstu leikmenn Íslands frá upphafi. Sara Björk Gunnarsdóttir er leikjahæst með 136 leiki.

Leikjahæstu leikmenn Íslands frá upphafi með A-landsliði kvenna:

Sara Björk Gunnarsdóttir, 136 (2007-)
Katrín Jónsdóttir, 133 (1994-2013)
Margrét Lára Viðarsdóttir, 124 (2003-2019)
Hallbera Guðný Gísladóttir, 121 (2008-)
Dóra María Lárusdóttir, 114 (2003-2017)
Hólmfríður Magnúsdóttir, 112 (2003-2017)
Fanndís Friðriksdóttir, 109 (2009-)
Þóra Björg Helgadóttir, 108 (1998-2014)
Edda Garðarsdóttir, 103 (1997-2013)
Rakel Hönnudóttir, 102 (2008-)