HEIMA-SKAGA tónlistarhátíðinni aflýst – „sendum íbúum Akraness bata- og baráttukveðjur“

Tónlistarhátíðinni HEIMA-SKAGI hefur verið aflýst vegna aðstæðna í samfélaginu á Akranesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Tilkynningin er hér fyrir neðan:

Í ljósi aðstæðna dettur okkur ekki í hug að halda HEIMA-SKAGA hátíðina um helgina eins og stóð til. Okkur þykir það auðvitað hrikalega leiðinlegt þar sem allt var klárt og ekkert eftir nema bara segja: Nú má partíið byrja!

Við viljum þakka húseigendum, tónlistarfólki, miðakaupendum, styrktaraðilum og öðrum sem hafa komið að undirbúning hátíðarinnar kærlega fyrir áhugann og velvilja í garð HEIMA-SKAGA. Við erum alls ekki hætt – sjáumst bara á HEIMA-SKAGA 2022 að ári, en hugsanlega og vonandi náum við að halda HEIMA-SKAGA Barnanna áður en árið er liðið. Það verður þá auglýst síðar.


Þeir sem eru búnir að kaupa miða fá póst frá Tix.is varðandi endurgreiðslu. Okkur skilst að það sé líka hægt að geyma miðana þar til næst.

Í lokin sendum við íbúum Akraness bata- og baráttukveðjur og óskum þeim góðrar heilsu. Þetta er glatað ástand en áfram og upp – það er það eina sem er í boði.