Ólafur Elías getur ekki sótt um rafræn skilríki – „Brýnt að úr þessu verði bætt“


Skagamaðurinn Ólafur Elías Harðarson, sem er 24 ára gamall og með Downs-heilkenni hefur ekki getað fengið rafræn skilríki vegna krafna um að hann sæki þau sjálfur og velji lykilorð án aðstoðar.

Þetta kemur fram í viðtali við móður Ólafs, Ágústu Rósu Andrésdóttur, á fréttavef RÚV.

Ólafur Elías fór í Covid-19 próf en hann gat ekki nálgast niðurstöðurnar þar sem hann er ekki með rafræn skilríki. Ágústa Rósa segir að brýnt að úr þessu verði bætt.

Í viðtalinu rekur Ágústa Rósa það ferli sem Ólafur Elías hefur farið í gegnum til að nálgast rafræn skilríki hjá Auðkenni og í framhaldi af því aðgengi að Heilsuveru. Ágústa Rósa segir að svörin hjá Auðkenni hafi verið á þá leið að Ólafur Elías geti ekki fengið rafræn skilríki ef hann getur ekki fyllt út umsókn þess efnis án aðstoðar. „

„Hann getur skrifað nafnið sitt en hann getur ekki stimplað inn lykilorð og fundið það. En hann má ekki fá neina aðstoð,“ segir Ágústa Rósa í viðtalinu á RÚV og bendir hún á að það hafi oft komið sér illa fyrir Ólaf Elías að hafa ekki aðgang að rafrænum skilríkjum. Þar á meðal að fá niðurstöður úr Covid-19 prófinu en Ágúst Rósa fékk þær niðurstöður með tölvupósti eftir að hún hafði samband við Heilsuveru og útskýrði stöðuna.

Ennfremur segir Ágústa Rósa að svörin sem hún fái varðandi stöðuna á aðgengi Ólafs að rafrænum skilríkjum séu á þá leið að þetta sé hvimleitt – en svona væri staðan.

Viðtalið við Ágústu Rósu má lesa í heild sinni á vef RÚV.