Skagafrettir.is fagna fimm ára afmæli í dag. Þessi tími, alls 1827 dagar, hefur verið skemmtilega fljótur að líða og viðtökur lesenda frábærar. Takk fyrir allar heimsóknirnar, hrósið og lesturinn.
Samanlagt hafa um 400 þúsund gestir komið í heimsókn á skagafrettir.is frá opnunardeginum en vefurinn fór „óvart“ í loftið þann 10. nóvember 2016. Hugmyndina má rekja til sjónvarpsfréttar á Stöð 2 í október 2015 sem vakti þann sem þetta skrifar til umhugsunar að kannski væri ráð að skrifa jákvæðar fréttir frá heimabænum Akranesi.
Á þeim tíma var lítið fjallað um það jákvæða í bænum. Það sem var í fréttum á landsvísu var vond lykt, brothætt atvinnuástand, fjör í fjölbraut og eitthvað meira vesen. Þegar íbúi á Akranesi á áttræðisaldri varð að fréttaefni þegar hann pakkaði niður í tösku og flutti til Berlínar – og kvaddi með orðunum „Akranes ágætur bær en hálfgerður svefnbær“ var ekki aftur snúið. Eitthvað varð að gerast.
Á næstu mánuðum var verkefnið sett í ferli, og skagafrettir.is fór í loftið alveg „óvart“ 10. nóvember 2016. Planið var að setja allt í loftið í lok nóvember en „misskilningur“ varð til þess að vefurinn varð sýnilegur og þá var ekki aftur snúið.
Rrúmlega 4500 fréttir hafa birst á skagafrettir.is. Margar þeirra hafa náð miklu flugi og mörg þúsund lesendur hafa gripið þær á lofti á stórum fréttadögum. Í gær var nýtt aðsóknarmet sett þegar rúmlega 7000 gestir heimsóttu skagafrettir.is
Aðsóknin hefur aukist gríðarlega með hverju árinu sem líður. Ný viðmið og aðsóknarmet hafa verið sett með reglulegu millibili. Á allra síðustu dögum hefur aðsóknin aldrei verið meiri.
Frá upphafi hafa jákvæðar fréttir verið rauði þráðurinn í fréttaflórunni. Markmiðið er að halda áfram að vera oftast sólarmegin í áherslum líkt og margir bæjarfréttamiðlar hafa tileinkað sér.
Helsta markmiðið er að segja sögur frá Akranesi sem flestir vilja heyra. Eitthvað sem er jákvætt, skemmtilegt, fróðlegt. Á „Skaganum“ verða slíkar sögur til á hverjum einasta degi í kraftmiklu og ört vaxandi samfélagi.
Ef þið lesendur góðir gætuð bent okkur á slíkar sögur þá er það vel þegið. Það þarf að segja frá því sem vel er gert og koma því til skila.
Skagafrettir.is hefur frá upphafi verið opinn fréttavefur og markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að fréttavefir séu aðgengilegir og opnir fyrir öllum.
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að rekstur fjölmiðla á Íslandi er krefjandi verkefni. Tekjumöguleikum fjölmiðla fer fækkandi. Risafyrirtæki á samfélagsmiðlamarkaðinum hafa náð stórum hluta af því auglýsingafé sem er til skiptana. Stórfyrirtæki á Íslandi nýta sér einnig slíkar lausnir í stað þess að nýta sér fjölmiðla „heima í héraði“ sem beina kastljósinu að nærsamfélaginu. Stuðningur lesenda er því afar mikilvægur og sterkasta stoð íslenskra fjölmiðla.
Frjáls framlög frá lesendum og auglýsingar frá fyrirtækjum úr nærsamfélaginu hafa frá upphafi verið styrkasta stoðin í rekstrinum. Slíkur stuðningur er afar mikilvægur og hvatning til að halda áfram að miðla því öllu því jákvæða sem er í gangi á Akranesi og hjá Skagamönnum nær og fjær. Takk stuðninginn fyrir að fylgjast með skagafrettir.is.
Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar ef þú vilt styðja við bakið á Skagafrettir.is.
Sigurður Elvar Þórólfsson, eigandi og ritstjóri.
[email protected]