Nýverið veitti Knattspyrnufélag ÍA Stínu – og Donnabikarinn til leikmanna félagsins sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í íþróttinni samhliða því að vera fyrirmyndar einstaklingur á öllum sviðum félagsins. Verðlaunin eru veitt leikmönnum úr 3. eða 4. flokki ÍA ár hvert.
Að þessu sinni fékk Elvira Agla Gunnarsdóttir leikmaður 3. flokks kvenna Stínubikarinn og Haukur Andri Haraldsson leikmaður 3. fl. karla fékk Donnabikarinn.
Stínubikarinn er nefndur í höfuðið á Kristínu Aðalsteinsdóttur, Stínu, sem er fyrsta landsliðskona ÍA en hún var burðarás í liði ÍA í kringum 1980 og lék sinn fyrsta landsleik árið 1981 og alls 3 landsleiki á árunum 1981-1982.
Stínubikarinn á að vera hvatning til ungra stelpna að stefna hátt og vinna sér sæti í meistaraflokki ÍA og landsliðinu eins og Stína gerði á sínum tíma. Gefandi bikarsins er Þorgeir og Ellert hf.
Donnabikarinn er afhentur efnilegasta leikmanni yngri flokka karla. Donnabikarinn var gefinn árið 1983 af fjölskyldu Donna, sem hét fullu nafni Halldór Sigurbjörnsson, en hann var burðarás í fyrsta Gullaldarliði Skagamanna. Hann lék 110 leiki með Skagamönnum og skoraði 40 mörk, en einnig lék hann 8 landsleiki fyrir Ísland.