Skólafélagar Bjarka Fannars sýna stuðning sinn í verki með góðu hjartalagi og söfnun

Bjarki Fannar Hjaltason fer í viðamikla hjartaaðgerð á næstu vikum í Bandaríkjunum. Skagamaðurinn sem er fæddur árið 2007 fékk góðar kveðjur og stuðning frá samnemendum sínum úr Brekkubæjarskóla úr árgangi 2007.

Árgangurinn stóð fyrir söfnun með aðstoð foreldra og forráðamanna með það að markmiði að Bjarki Fannar gæti nýtt söfnunarféð til þess að stytta sér stundir á meðan hann dvelur í Bandaríkjunum.

Alls söfnuðust tæplega 150 þúsund kr. og afhentu Davíð Logi Heiðarson og Sunneva Dís Breiðfjörð Freysdóttir söfnunarféð.

Hægt er að styðja við bakið á Bjarka og fjölskyldu hans með því að leggja inn á söfnunarreikning.

Bjarki Fannar er 14 ára ára og næst elstur fimm systkina. Eins og áður segir fer Bjarki Fannar í viðamikla hjartaaðgerð í Boston í Bandaríkjunum þann 6. desember en hann hefur glímt við hjartasjúkdóm í mörg ár. Bjarki Fannar þjáist af sjaldgæfum hjartagalla sem kallast Shone´s syndrom. Hann fór mjög ungur í tvær hjartaaðgerðir vegna sjúkdómsins og nú er komið að þeirri þriðju.

Foreldrar hans eru Hjalti Örn Jónsson og Myrra Gísladóttir. Fjölskyldan fer saman út í lok nóvember og dvelur þar til 3. janúar 2022. Kostnaðurinn er mikill við þetta stóra verkefni fyrir fjölmenna fjölskyldu og eru Skagamenn nær og fjær hvattir til þess að taka þátt.

Reikningur: 0326-13-110061
Kt: 310807-2140