Hér átti að vera myndasyrpa frá jólaskemmtun á Akratorgi

Hér átti að vera myndasyrpa frá viðburði sem fram fór í morgun á Akratorgi.

Tveir ungir Akurnesingar og afmælisbörn dagsins fengu þann heiður í dag að tendra ljósin á jólatrénu á Akratorgi.

Viðburðurinn fór fram með óhefðbundnu sniði vegna samkomutakmarkana og var þetta annað árið í röð þar sem að heimsfaraldur setur takmarkanir á viðburðinn.

Leikskólabörnum og dagforeldrum var boðið að koma á jólaskemmtunina sem fram fór í morgun – og tókst vel að sögn þeirra sem voru á svæðinu.

Þetta er líka annað árið í röð þar sem að Skagafréttir eru ekki með myndasyrpu frá þessum skemmtilega viðburði. Ástæðan er einföld. Þetta er annað árið í röð þar sem að Akraneskaupstaður býður Skagafréttum ekki að taka þátt eða lætur vita af tímasetningu af þessu viðburði.

Fyrir ári síðan var aðeins fulltrúa frá einum fjölmiðli boðið á viðburðinn til þess að fjalla um viðburðinn og Skagafréttir var ekki sá fjölmiðill. Að þessu sinni var engum fjölmiðlum boðið að taka þátt eða vera á svæðinu – það gleymdist.

Skagafréttir fengu fregnir af viðburðinum þegar honum var lokið – í gegnum fésbókarfærslu Skagamanns sem býr við Akratorg.

Skagafréttir eru samt sem áður í talsverðu jólaskapi þrátt fyrir þessa hunsun.

Sigurður Elvar Þórólfsson, ritstjóri.