Skagamennirnir Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson komu mikið við sögu í gær þegar FC Kaupmannahöfn landaði 4-0 sigri gegn Lincoln Red Imps á útivelli á Gíbraltar í gær. Um var að ræða leik í F-riðli Sambandsdeildar Evrópu.
Ísak og Hákon voru báðir í byrjunarliðinu hjá FCK sem tryggði sér efsta sætið í riðlinum með sigrinum og sæti í 16 liða úrslitum.
Hákon Arnar átti stóran þátt í fyrsta marki leiksins sem Ísak Bergmann skoraði – en með dugnaði og áræðni náði Hákon Arnar að búa til augnablikið sem varð til þess að Ísak gat skorað af stuttu færi. Ísak Bergmann er þar með yngsti markaskorarinn í Sambandsdeildinni frá upphafi.
Ísak Bergmann var sannarlega maður leiksins þar sem hann lagði upp tvö mörk FCK í síðari hálfleik.
Ísak Bergmann og Hákon Arnar eru báðir fæddir árið 2003 og léku saman upp yngri flokka ÍA. Þeir urðu liðsfélagar fyrr á þessu ári þegar FCK keypti Ísak Bergmann frá sænska liðinu Norrköping.