Björn Viktor kylfingur ársins 2021 hjá Golfklúbbnum Leyni


Björn Viktor Viktorsson er kylfingur ársins 2021 hjá Golfklúbbnum Leyni. Greint var frá valinu á aðalfundi Leynis nýverið.

Björn Viktor hefur verið í fremstu röð í sínum aldursflokki á unglingamótaröð GSÍ og varð hann þrívegis í öðru sæti á mótum tímabilsins.

Hann varð annar á stigalista unglingamótaraðarinnar og bætti árangur sinn um tvö sæti frá árinu 2020.

Björn Viktor, sem er fæddur árið 2003, lék með piltalandsliði Íslands sumarið 2021 á Evrópumóti piltalandsliða í Eistlandi.

Það var í fyrsta sinn sem Björn Viktor var valinn í landslið á vegum GSÍ.

Hann er fyrsti kylfingurinn sem kemst í landslið GSÍ frá því að Valdís Þóra Jónsdóttir lék með landsliðum Íslands áður en hún gerðist atvinnukylfingur.

Í umsögn Leynis um Björn Viktor kemur m.a. fram að hann mæti á allar æfingar með því markmiði að bæta sig og er mikil fyrirmynd fyrir okkar yngri kylfinga. Björn er vel að þvi kominn að vera kylfingur ársins hjá Golfklúbbnum Leyni.