Jóhannes Karl nýr aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og hættir hjá ÍA

Jóhannes Karl Guðjónsson er hættur sem þjálfari meistaraflokks ÍA. Hann hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍA sem er hér fyrir neðan.

Knattspyrnufélag ÍA veitti þjálfara meistaraflokks karla, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, leyfi fyrir stuttu til að ræða við KSÍ um starf aðstoðarlandsliðsþjálfara A landsliðs karla. Jóhannes Karl hefur ákveðið að taka boði KSÍ og mun því láta af störfum hjá ÍA.

Knattspyrnufélag ÍA mun á næstu dögum ákveða hver tekur við af Jóhannesi Karli en á meðan mun þjálfarateymi meistaraflokks karla undir stjórn Guðlaugs Baldursson, aðstoðarþjálfara, stjórna æfingum og leikjum liðsins. Í þessum breytingum felast áskoranir fyrir félagið, stuðningsmenn og leikmenn, en það er markmið félagsins að leysa úr stöðunni á farsælan hátt þannig að félagið komi öflugt til leiks á komandi Íslandsmóti. Það er stefna ÍA að vera
í fremstu röð í knattspyrnu á Íslandi.

Jóhannes Karl verður þar með einn af mörgum þjálfurum Knattspyrnufélags ÍA sem hafa farið til starfa hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Það eitt og sér er viðurkenning á starfi félagsins en félagið leggur áherslu á að fá til starfa vel menntaða og hæfa þjálfara. Knattspyrnufélag ÍA þakkar Jóhannesi Karli Guðjónssyni góð störf fyrir félagið sl. ár og óskar honum góðs gengis á nýjum vettvangi.