Nýr dælubíll á „innkaupalista“ Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar

Akraneskaupstaður mun taka þátt í rammaútboði ríkiskaupa fyrir hönd sveitarfélaga vegna kaupa á dælubílum fyrir starfsemi slökkviliða.

Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi ráðsins að leggja það til að bæjarstjóri vinni málið áfram.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að átta sveitarfélög hafi nú þegar lýst yfir áhuga á að taka þátt í úboðinu en frestur til að falla frá þátttöku í útboðinu er til 14. febrúar næstkomandi.

Með þátttöku í útboðinu er talið mögulegt að ná fram hagstæðari verði en á almennum markaði án útboðs. Tímasetning kaupa á bifreiðinni liggur ekki fyrir en yrði annað hvort á árinu 2023 eða 2024.

Ef af verður þarf að gera ráð fyrir fjárfestingunni í fjárhagsáætlunum Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar.