Snemma í morgun kom Bjarni Ólafsson AK 70 til Neskaupstaðar með fyrsta loðnufarminn sem þangað berst á vertíðinni sem veiddur er í nót. Þetta kemur fram í færslu á fésbókarsíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Fram til þessa hafa loðnuskipin veitt í flotvörpu en nú eru þau að taka grunnnætur og flotvörpuveiðunum að ljúka. Barði NK er að landa á Seyðisfirði 1.900 tonnum og er það væntanlega síðasti loðnufarmurinn veiddur í flotvörpu sem berst til Síldarvinnslunnar á vertíðinni.
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að töluvert sé að loðnu á miðunum og Skagamanninum líst vel á framhaldið.
„Þetta fékkst uppi í fjörunni við Hrollaugseyjar. Það var einungis unnt að kasta í fáeina klukkutíma í gærdag því loðnan gekk út á hraunið fjær landi og þar er ekki unnt að kasta. Það var töluvert að sjá af loðnu og þarna var hægt að fá ágætis köst. Við fengum okkar afla í þremur köstum. Þar sem við vorum voru einir tíu bátar að veiðum og þar á meðal tveir færeyskir. Loðnan sem þarna fæst er stór og falleg. Það eru 33-35 í kílóinu. Mér líst afar vel á framhaldið. Það verður að segjast að þetta lítur bara ágætlega út,“ segir Runólfur.
Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, tekur undir með Runólfi og segir að loðnan sé stór og falleg.
„Þetta er spriklandi topploðna og vinnslan gengur mjög vel. Hrognafyllingin er 12,4% og brátt mun frysting hefjast fyrir Asíumarkað en þá þarf hrognafyllingin að vera 14-15%. Hrognavinnsla hefst hins vegar ekki fyrr en hrognafyllingin er um 25% og loðnan farin að losa hrognapokann,“ segir Jón Gunnar.