Málefni Fjöliðjunnar á Akranesi hafa verið mikið í umræðunni á meðal bæjarbúa. Framundan eru ýmsar breytingar hvað varðar húsnæði en starfssemi Fjöliðjunnar er á nokkrum stöðum á Akranesi.
Nýverið birti Akraneskaupstaður ítarlega greinargerð þar sem að farið er yfir stöðuna og framtíðarhorfur.
Þar kemur eftirfarandi fram:
Fjöliðjunni, vinnu- og hæfingarstað fer fram fjölbreytt og mikilvæg starfsemi. Síðustu þrjú ár hefur meginhluti starfseminnar verið með aðstöðu að Smiðjuvöllum 9 eða frá því að bruni kom upp í húsnæði starfsstöðvarinnar við Dalbraut árið 2019. Auk húsnæðisins að Smiðjuvöllum 9 hefur Fjöliðjan verið með verkefni á nokkrum öðrum starfsstöðum í sveitarfélaginu. Bæjaryfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að leitað lausna á húsnæðismálum Fjöliðjunnar og bæta starfsumhverfi hennar með faglegum hætti.
Mikilvægt framfaraspor verður tekið nú í mars en þá mun Fjöliðjan fá aukið og betra rými fyrir starfsemi sína en sveitarfélagið hefur tekið rúma 260 fermetra húsnæði á leigu að Smiðjuvöllum 28. Um er að ræða nýtt húsnæði sem mun bæta starfsaðstæður Fjöliðjunnar og starfsmanna hennar mikið. Fjöliðjan verður áfram með aðstöðu á Smiðjuvöllum 9. Verkefnum og þjónusta Fjöliðjunnar verður dreift á þessar starfsstöðvar og starfsmenn færa sig á milli verkefna og starfsstaða eftir aðstæðum og stöðu hvers og eins hverju sinni. Móttaka einnota umbúða verður áfram á Smiðjuvöllum 9.
Á síðustu dögum hafa stjórnendur Fjöliðjunnar, sviðsstjóri, rekstrarstjóri mannvirkja og bæjarstjóri unnið í nánu samstarfi við leigusala til að gera allan aðbúnað og aðgang sem bestan þannig að hann komi til móts við þarfir starfsmanna og henti starfseminni sem best.
Bæjaryfirvöld samþykktu þessu til viðbótar nýlega heimild fyrir því að Fjöliðjan fengi aðra bifreið til umráða til að kom til móts við vaxandi og fjölbreyttrar starfsemi. Áherslur bæjaryfirvalda eru að búa sem best um starfsemi Fjöliðjunnar þar til uppbygging á framtíðarhúsnæði stafseminnar verður tekin í notkun að Dalbraut 8 og Kalmansvöllum 5.
Framtíð starfsemi Fjöliðjunnar er björt á Akranesi þó starfsstöðin hafi farið í gegnum tímabundna örðugleika vegna eldsvoða. Fullur vilji hjá öllum sem koma að starfseminni að standa vel að málum og áherslan er á að sjá aukin fjölbreytileika í atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk á Akranesi.
Allir bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar standa saman að samþykkt um framtíðaruppbyggingu vinnustaðarins. Opnun nýrrar starfsaðstöðu á Smiðjuvöllum 28 í mars er eitt skref af í átt að þessu lokamarkmiði.
Vinnu- og hæfingarstaðir eru með fjölbreytt verkefni s.s. vinnuverkefni, hæfingu og dagþjónustu. Áskoranir vinnu- og hæfingarstaða hafa verið að afla vinnutengdra verkefna og eiga samstarf við atvinnurekendur til að veita fötluðu fólki tækifæri til fjölbreyttrar vinnu. Akurnesingar gera sér grein fyrir mikilvægi starfseminnar og samstaða um að standa vörð um starfsemina hér eftir sem hingað til. Fjöliðjan hefur verið einn opnasti vinnustaður á Akranesi með miklum heimsóknum daglega. Þessi samfélagslega þátttaka allra starfsmanna hefur verið mikilvægur og verðmætur þáttur í allri starfsemi og vinnustaðamenningu Fjöliðjunnar. Þetta vil bæjarstjórn og stjórnendur Fjöliðjunnar hlúa að til framtíðar. Í því felst að þróa verkefni og nýta aukin tækifæri sem munu skapast í Samfélagsmiðstöðinni. Framundan er spennandi vinna sem ætlað er að styðja við markmið bæjarstjórnar og stjórnenda Fjöliðjunnar um samfélag án aðgreiningar. Stýrihópar fyrir uppbyggingu Samfélagsmiðstöðvar og uppbyggingu sameiginlegs húsnæðis áhaldahúss, Fjöliðja og Búkollu hefur störf á næstunni ásamt því að fyrirhugað er virkt samstarf um uppbygginguna með starfsmönnum allra starfseininga sem þar munu starfa í framtíðinni.