Valgarður og Kristinn gefa kost á sér í efstu sætin á framboðslista Samfylkingarinnar

Framboðslisti Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2022 verður birtur í lok marsmánaðar. Uppstillingarnefnd flokksins er að störfum og ætlar að komast að niðurstöðu á næstu dögum.

Samfylkingin fékk alls 31,2 % atkvæða í síðustu kosningum og þrjá bæjarfulltrúa. Samfylkingin myndaði meirihluta með Framsókn og frjálsum.

Valgarður Lyngdal Jónsson, sem var í 1. sæti listans í kosningunum 2018, hefur ákveðið að gefa kost á sér í efsta sæti listans. Kristinn Hallur Sveinsson, sem var í fjórða sæti listans í síðustu kosningum, hefur einnig ákveðið að gefa kost á sér í eitt af efstu sætunum.

Kristinn Hallur kom inn í bæjarstjórn Akraness í september árið 2019 eftir að Gerður Jóhannsdóttir, sem skipaði annað sætið á listanum, sagði sig frá störfum í bæjarstjórn.

Bæjarfulltrúinn Bára Daðadóttir, sem var í þriðja sæti listans í síðustu kosningum, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

Hér má sjá úrslitin úr bæjarstjórnarkosningunum 2018.