Tveir ungir leikmenn úr röðum ÍA eru þessa stundina við æfingar hjá danska knattspyrnuliðinu FCK í Kaupmannahöfn. Það eru þeir Haukur Andri Haraldsson og Daniel Ingi Jóhannesson. Haukur Andri er fæddur árið 2005 og Daniel Ingi er fæddur árið 2007 – og eru þeir báðir samningsbundnir ÍA.
Það ætti að fara vel um þá Hauk Andra og Daniel Inga í Kaupmannahöfn því bræður þeirra eru báðir leikmenn FCK. Hákon Arnar Haraldsson er bróðir Hauks Andra en hann fetaði sömu leið þegar hann var 16 ára þegar danska liðið keypti hann frá ÍA. Hákon Arnar hefur látið að sér kveða með unglingaliðum FCK og hefur einnig leikið með aðalliði FCK.
Daniel Ingi á einnig eldri bróður sem er í herbúðum FCK en það er Ísak Bergmann Jóhannesson. FCK keypti Ísak Bergmann í lok ágúst árið 2021. Ísak Bergmann var 18 ára þegar FCK keypti hann fyrir um 500 milljónir kr. og gildir samningur hans við danska liðið út leiktíðina 2026.