Líf, fjör og fjölmenni á Tæknimessu FVA

Það var mikið um að vera í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í dag þegar Tæknimessa FVA fór fram.

Markmið Tæknimessu er að kynna það nám sem er í boði í Fjölbrautaskóla Vesturlands á sviði iðn- og verkgreina og þau tækifæri sem bjóðast til atvinnu hjá iðn- og tæknifyrirtækjum í landshlutanum að loknu námi.

Þetta kemur fram í frétt á vef FVA.

Nemendum á unglingastigi grunnskóla á Vesturlandi mættu á Skagann til að kynna sér námsframboðið en um 750 manns mættu á Tæknimessuna. Á þessum viðburði er lögð áhersla á að kynna iðn- og verknám sem FVA býður upp á, en aðrar brautir buðu einnig upp á kynningu.

Ýmis tæknifyrirtæki kynntu sína starfsemi en eftir heimsókn nemenda í FVA var þeim boðið á kynningar í Nýsköpunarsetrið á Breið og stóriðjuna á Grundartanga.