Glæsilegur sigur hjá Káramönnum gegn Víkingum úr Ólafsvík í MjólkurbikarnumKári kom sá og sigraði í dag þegar liðið lagði Víkinga úr Ólafsvík 2-1 í Akraneshöllinni í 2. umferð Mjólkurbikarkeppni KSÍ.

Þjálfari Víkinga er Skagamaðurinn þaulreyndi Guðjón Þórðarson en liðið leikur í 2. deild – en Kári er í 3. deild.

Leikurinn var jafn og spennandi en Víkingar misstu leikmanna af velli á 20. mínútu þegar varnarmaður liðsins braut á leikmanni Kára sem var á auðum sjó fyrir framan mark Víkinga.

Arnar Már Kárason kom Kára yfir snemma í síðari hálfleik eða 50. mínútu. Flott mark hjá þessum knáa leikmanni sem fagnaði markinu líkt og faðir hans, Kári Steinn Reynisson, gerði á árum áður.

Hafþór Pétursson, sem gekk í raðir Kára nýverið eftir að hafa leikið með Þrótti Reykjavík undanfarin ár, stimplaði sig inn með því að skora annað mark Kára á 61. mínútu.

Gestirnir hleyptu lífi í leikinn með marki frá Emmanuel Eli Keke á 85. mínútu – en Káramenn stóðust prófið það sem eftir lifði leiks.

Kári verður því í pottinum þegar dregið verður í 3. umferð Mjólkurbikarkeppninnar 2022 þar sem að lið ÍA verður einnig í pottinum – og liðin gætu því mæst í þeirri umferð.

Myndasyrpa Kári – Víkingur Ó – Mjólkurbikar 2022 @skagafrettir.is – myndasyrpan er í vinnslu og fleiri myndir í vinnslu.