Í lok september lýkur sex ára sögu gistiþjónustu StayWest á Akranesi og í Borgarnesi. Hjónin Ingibjörg Valdimarsdóttir og Eggert Hjelm Herbertsson hafa selt allar eignir fyrirtækisins en gengið var frá sölu á gistiheimilinu við Suðurgötu með formlegum hætti í gær. Ingibjörg segir í pistli á fésbókarsíðu sinni að undanfarin sex ár hafi verið skemmtilegur, erfiður, lærdómsríkur og flókinn tími og þau sjái ekki eftir neinu. StayWest var með gistiheimili í Borgarnesi og á Akranesi.
„Nú hvet ég einhverja duglega einstaklinga að grípa kjörið viðskiptatækifæri á Skaganum. Opna hótel eða gistiheimili þar sem lítið er eftir af gistimöguleikum í bænum eftir sumarið og því frábært tækifæri fyrir duglega einstaklinga eða fyrirtæki að grípa það í ört vaxandi bæ,“ segir Ingibjörg ennfremur.
Nýr eigandi gistiheimilisins við Suðurgötu ætlar samkvæmt heimildum að nýta húsið sem gistiaðstöðu fyrir starfsmenn fyrirtækja sem verða í uppbyggingarverkefnum á Akranesi næstu misserin og árin.
StayWest hefur einnig verið með gistiheimili í Kirkjuhvoli sem er í eigu Akraneskaupstaðar – en leigusamningur um þann rekstur rennnur út í haust. Um tíma var StayWest einnig með gistiheimili á heimavist Fjölbrautaskóla Vesturlands yfir sumartímann – en slík aðstaða var ekki í boði sumarið 2021 vegna heimsfaraldurs og framkvæmda á heimavistinni.