Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Jónínu Margréti Sigmundsdóttur.
Samfélag er heild sem samsett er af einstaklingum þar sem hver um sig hefur sitt hlutverk, sínar þarfir, langanir og tækifæri. Samfélag sem ekki stendur vörð um alla er ekki gott, það býr til misrétti, rænir fólk möguleikum og gefur sumum forskot fram yfir aðra. Slíkt samfélag einkennist af misrétti og er í hróplegri andstöðu við hugmyndir jafnaðarfólks um farsæld og jafnrétti. Þess vegna viljum við standa vörð um grunngildi jafnaðarmanna. Áætlun um farsæld og jafnrétti einstaklinga er líka eilífðarverkefni sem sífellt þarf að halda á lofti, breyta og bæta.
Það þarf þorp
Fjölskyldan er hornsteinn allra og það mikilvægasta sem við eigum. Hún er oft nefnd kjarni hvers þjóðfélags, enda er þar leikið aðalhlutverkið, nefnilega að ala upp nýja einstaklinga sem taka svo við seinna meir. Fjölskyldan í nútímasamfélagi á aldrei að standa ein – oft er talað um að það þurfi heilt samfélag til að ala upp einstaklinga. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni mikla áherslu á að stuðningur við fjölskyldur sé bæði faglegur og sterkur, að enginn verði útundan og allir njóti góðrar og viðvarandi þjónustu og aðstoðar þegar með þarf. Jöfnuður og velferð er lykilhugtak í þessu sem öðru því það snýst um að allir í samfélaginu búi við grundvallaröryggi og hafi sömu grundvallartækifærin í lífinu. Það viljum við fyrir okkur sjálf og enn frekar fyrir börnin okkar. Afkoma allra þarf vera trygg, bæði fjárhagslega og félagslega til þess að við getum sagt að við búum í velferðarsamfélagi.
Við erum Þorpið sem börnin okkar búa í.
Samþætting er góð
Við í Samfylkingunni leggjum ríka áherslu á samþættingu skólastarfsins, frístundar og tómstundastarfs til að fjölskyldur eigi meiri tíma saman og að snúningar og skutl sé í lágmarki. Okkur er óhætt að flokka samverustundir fjölskyldunnar sem einn mest verndandi þátt í lífi barna. Samverustundir eru dýrmætar fyrir foreldra og börn og hefur sýnt að aukin samvera fjölskyldunnar hefur ekki síður forvarnargildi heldur getur aukin samvera dregið verulega úr líkum á að börnin okkar eigi í erfiðleikum síðar á lífsleiðinni. Þá þarf að vera tiltæk aðstoð fagfólks strax á fyrstu stigum vandans með samfellda og samþætta þjónustu ef eitthvað virðist vera að fara úrskeiðis.
Heilnæmt umhverfi og fjölskylduvænt skipulag er líka eitt af mikilvægustu atriðum til að búa til gott samfélag. Þess vegna viljum við leggja okkur fram um að bærinn okkar sé fallegur, snyrtilegur og okkur öllum til prýði og sóma. Fallegur og snyrtilegur bær er eftirsóknarverður til búsetu og þannig umhverfi eykur lífsgleði okkar og lífsgæði. Allt þetta eru auðvitað eilífðarverkefni, götur þarf að endurnýja og grænu svæðin ganga úr sér. Mikilvægi heilsusamlegs umhverfis verður nefnilega seint fullmetið. Við í Samfylkingunni viljum því að bæjarfélagið geri sitt til þess að auðvelda fólki hreyfingu og virkja þátttöku allra í samfélaginu því andleg og líkamleg heilsa fylgjast gjarnan að.
Ágætu Skagamenn! Við í Samfylkingunni viljum leggja okkur fram um að viðhalda því góða sem við höfum í bænum okkar, en við vitum líka að margt má bæta. Til þess þarf opinn huga, löngun til framfara og breytinga og hugrekki og dugnað til að koma hugmyndum í verk. Við erum tilbúin, þess vegna þurfum við ykkar stuðning – XS Að sjálfsögðu!
Höfundur er Jónína Margrét Sigmundsdóttir og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar á Akranesi.