Stefnt að stofnun hátækni hita – og gufuveitu á GrundartangaÞróunarfélagið á Grundartanga undirbýr stofnun hita- og gufuveitu á Grundartanga í samstarfi við fyrirtæki á Grundartangasvæðinu og nálæg sveitarfélög. Fyrirhuguð er umsókn frá félaginu um stofnstyrk til Orkusjóðs og hefur bæjarráð Akraness samþykkt að taka þátt í styrkumsókninni.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs:

Hitaveita á Grundartanga sem nýtir umframvarma er frábrugðin hefðbundnum hitaveitum á Íslandi að því leiti að þetta er fjarvarmaveita sem er í lokuðu tvöföldu kerfi þannig að vatn til upphitunar er endurnýtt og því eykst notkun ferskvatns ekkert miðað við núverandi notkun.

Fundargerðin í heild sinni:

Á Grundartanga verður til talsvert magn varma í tengslum við starfsemi iðnfyrirtækjanna þar. Horft hefur verið til þess að nýta þessa orkulind sem í dag fer til spillis.

Markmið með orkuendurvinnslu á Grundartanga eru m.a. eftirfarandi:
-Draga úr orkusóun (glatvarma, raf- og olíukyndingu á svæðinu)
-Koma upp hitaveitu á Grundartanga og nærumhverfi sem í dag er kalt svæði
-Draga úr losun á koltvísýringi (CO2)
-Styðja við fjölnýtingu
-Styðja við klasasamstarf
-Stunda nýsköpun og tækniþróun

Einn af þeim kostum sem er nærtækastur er að nýta umframvarmann sem orkugjafa til hita- og gufuveitu fyrir fyrirtæki á Grundartanga. Til þessa hefur orka til upphitunar húsnæðis og fyrir heitt neysluvatn verið fengin úr 1-3 MW af raforku sem nýta mætti til verðmætari þarfa. Til lengri tíma litið er mun hagkvæmara að kynda hús með hitaveitu sem mun því gera rekstur fyrirtækja á Grundartanga hagkvæmari. Til þessa hefur ekki verið boðið upp á hitaveitu á Grundartanga og því hafa núverandi fyrirtæki sett upp rafmagns hitakerfi.

Jafnframt því að útbúa hitaveitu fyrir Grundartangasvæðið miðar hönnun verkefnisins að því að geta seinna meir einnig veitt hita til nærliggjandi býla sem nú njóta niðurgreiðslu vegna rafhitunar og þannig bætt nýtingu hitaveitunnar og orku á svæðinu.

Hitaveita á Grundartanga sem nýtir umframvarma er frábrugðin hefðbundnum hitaveitum á Íslandi að því leiti að þetta er fjarvarmaveita sem er í lokuðu tvöföldu kerfi þannig að vatn til upphitunar er endurnýtt og því eykst notkun ferskvatns ekkert miðað við núverandi notkun.

Þróunarfélagið á Grundartanga undirbýr stofnun hita- og gufuveitu á Grundartanga í samstarfi við fyrirtæki á Grundartangasvæðinu og nálæg sveitarfélög.

Fyrirhuguð er umsókn um stofnstyrk til Orkusjóðs og óskað er eftir vilyrði bæjarráðs um þátttöku í styrkumsókninni.

Ólafur Adolfsson, aðalfulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórn Þróunarfélagsins á Grundartanga situr fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir viljayfirlýsingu f.h. Akraneskaupstaðar vegna styrkumsóknar Þróunarfélagsins til Orkusjóðs.