Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Ragnheiði Helgadóttur:
Á Akranesi er hlutfall eldri borgara hátt og er fyrirséð að þessi flotti hópur á eftir að stækka talsvert á komandi árum. Með hækkandi aldri má alveg búast við að færni fari minnkandi, þó hraðinn á því ferli sé mjög einstaklingsbundinn og flestir vilja lifa sjálfstæðu lífi á sínu heimili. Margir geta verið lengi og jafnvel ævina á enda heima. Þá er hægt að nýta stuðning félagsþjónustu og heimahjúkrunar ef þörf er á því. Það er þó ekki úrræði sem hentar öllum. Einhverjir einstaklingar þurfa að komast á hjúkrunarheimili. Biðlistinn er langur í varanlega vistun á Höfða og margir einstaklingar í mikilli þörf. Á Höfða eru 74 rými og tvö hvíldarpláss. Um 40 einstaklingar eru á bið eftir varanlegri vistun og milli 50-60 einstaklingar eiga samþykki fyrir allt að 6 vikum á ári í hvíldarpláss. Það að komast í hvíldarinnlögn er úrræði sem styður vel við einstaklinga og fjölskyldur þeirra og verður oft til þess að fólk fær lengri tíma á heimili sínu. En svo er það hópurinn sem er á milli. Einstaklingarnir sem þurfa talsverða aðstoð, stuðning og félagsskap en þó ekki svo mikinn að þörf sé á hjúkrunarrými.
En hvað getum við gert og hvað verður að gera?
Ég tel mikilvægt að Akranes geri sér framtíðarstefnu í öldrunarmálum. Mikilvægt er að á Akranesi verði farið í byggingu þjónustuíbúða. Búsetuform í þeirri mynd eykur lífsgæði margra einstaklinga. Þjónustuíbúðir þar sem hægt er að fá aðstoð við athafnir daglegs lífs, félagsskap og öryggi. Efla þarf starf félagsþjónustu, ráða inn fleiri fagaðila og byrja að nýju að sinna þessari þjónustu alla daga ársins.
Við á Akranesi erum heilsueflandi samfélag og tel ég mikilvægt að koma af stað verkefni sem stuðlar að aukinni líkamlegri færni og styrk. Nokkur sveitarfélög hafa innleitt Janus heilsuefling með góðum árangri. Það verkefni snýst um að koma á fót markvissri heilsueflingu með lýðheilsutengdu inngripi og má líta á það sem forvarnarverkefni. Ávinningurinn af slíku verkefni hefur verið sá að einstaklingar geta tekist á við athafnir daglegs lífs lengur en ella og þannig getað búið lengur í sjálfstæðri búsetu. Þá eru lífsgæði meiri og einhverjir haft tækifæri til að vera lengur á vinnumarkaði.
Fjöldi einstaklinga sem greinast með heilabilun hefur aukist mikið og aldur við greiningu hefur farið lækkandi. Þetta er hópur sem þarf sértækari úrræði og mikilvægt er að styðja við þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra.
Ég óska eftir ykkar stuðning í komandi Sveitarstjórnarkostningum. Gerum Akranes að framúrskarandi bæ fyrir alla að búa í, unga sem aldna.
XD- fyrir Akranes
Ragnheiður Helgadóttir
Höfundur er hjúkrunarfræðingur skipar 6 sæti á lista Sjálfstæðisflokks