Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Sædísi Alexíu Sigurmundsdóttur:

Á árunum 2013-2021 starfaði ég á bæjarskrifstofunni á Akranesi. Þar fékk ég tækifæri til að fást við fjölbreytt verkefni. Síðasta árið mitt í starfi tók ég við nýrri stöðu sem fól m.a. í sér ábyrgð á menningarmálum bæjarins. Áður hafði ég starfað í tengdum verkefnum eins og t.d. ferðamálum og hafði jafnframt ágæta innsýn í verkefnastöðu málaflokksins. 

Menningarmál er oft sá málaflokkur sem er sveltur hvað varðar fjárveitingar. Mörg verkefnin eru ekki lögbundin og fá því ekki það brautargengi sem þau verðskulda. Þessi setning er mjög almenn og á við um mörg sveitarfélög því að lögbundin verkefni eru stærri og fjárfrekari. Við höfum engu að síður á Akranesi látið verða að veruleika að endurnýja grunnsýningu Byggðasafnsins í Görðum sem opnuð var formlega fyrir um ári síðan og nýlega tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna. Mjög verðskulduð tilnefning enda glæsileg sýning og sendi ég innilegar hamingjuóskir til þeirra sem komu að gerð hennar. Þá höfum við einnig haft til taks verkefnastjóra í viðburðahaldi og hefur sá aðili haldið utan um stærstu viðburði bæjarins eins og 17. júní, Írska daga og Vökudaga. Menningarstofnanir bæjarins fóru í sameiginlegt verkefni að setja á laggirnar nýjar vefsíður fyrir söfnin til þess að bæta aðgengi að þjónustu og auka sýnileika safnanna. Þá hefur einnig vefurinn skagalif.is haldið áfram í þróun og er þar að finna ótrúlega nytsamlegar upplýsingar um frístundir, íþróttir og afþreyingu á Akranesi.   

Það er alltaf gott að líta til baka og rifja upp það sem vel hefur verið gert en alltaf má hugsa um leið hvað getum við gert enn betur og hvar við getum náð meiri árangri og framförum. Við hjá Framsókn og frjálsum trúum því að með því að standa vel að menningarmálum bæjarins munu gæði þess að eiga heima á Akranesi aukast. Við viljum á sama tíma auka þátttöku íbúanna í að gera gott enn betur með því að fá bæjarbúa að borði í skipulagningu viðburðahalds, listsköpun og menningarlífi bæjarins. 

Áherslur okkar eru eftirfarandi fyrir komandi kjörtímabil:

  • Við viljum standa áfram vel að viðburðahaldi á Akranesi og skoða möguleika á að stofna íbúaráð í kringum stærstu hátíð bæjarins, Írska daga. Bæjarhátíðin er fyrir samfélagið okkar og mikilvægt er að íbúar hafi aðkomu að undirbúningi hennar og möguleika á þátttöku. Þetta fyrirkomulag þekkist vel í öðrum sveitarfélögum og teljum við að þessi breyting geti gefið okkar hátíð meiri sérstöðu og eftirtekt. 
  • Við teljum þörf á heildstæðari framtíðarsýn fyrir Byggðasafnið í Görðum í takt við nálgun um lifandi og skapandi kennslusafn. Við viljum sjá aukna opnun á safninu yfir allt árið. Safnið glímir einnig við geymsluvanda og þarf að bregðast við því fyrr en seinna. Þá skiptir það okkur máli að styðja enn betur það metnaðarfulla starf sem er unnið í söfnum bæjarins. 
  • Við ætlum að skipuleggja svæði á Akranesi fyrir söguvörður og listviðburði til að gera sögu okkar skýrari og að listamenn á Akranesi fá aukinn sýnileika. Við ætlum að klára strandstíg um Akranes og við viljum fá listamenn með okkur í lið til þess að gera gönguleiðina enn áhugaverðari og fallegri ásamt fleiri verkefnum sem tengjast því að fegra umhverfið. 
  • Við viljum efla sókn Akraness í að sækja stuðning til sjóða sem geta hjálpað verkefnum að verða að veruleika. Um er að ræða sjóði eins og Uppbyggingarsjóð Vesturlands, Safnaráð og framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Staðreyndin er að Akranes, sem stærsta sveitarfélagið á Vesturlandi, hefur alltaf verið með fæstu umsóknir í sjóð eins og Uppbyggingarsjóð Vesturlands. Við þurfum að vera duglegri að sækja fram til þess að láta verkefni og drauma verða að veruleika.  
  • Við viljum að menning og listir blómstri á Akranesi og að húsnæði eins og Bíóhöllin og Tónberg séu í farabroddi við að styðja við slíkt. 

Menning varðar okkur öll, hún er okkar mynstur og skilgreinir hvernig samfélagið okkar er. Við getum saman gert betur fyrir okkar bæjarfélag, stofnanir, viðburði, listamenn svo fátt eitt sé nefnt. Látum þetta okkur varða. 

Að setja X við B er að setja X við enn betri stað til að búa á.


Sædís Alexía Sigurmundsdóttir

Höfundur skipar þriðja sæti á lista Framsóknar og Frjálsra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí nk.