Þetta er fólkið sem mun stjórna Akraneskaupstað næstu fjögur árin



Mikil endurnýjun verður í bæjarstjórn Akraness á næsta kjörtímabili eftir að úrslit kosninganna voru ljós í nótt. Fimm nýir bæjarfulltrúar koma inn og fjórir sitjandi bæjarfulltrúar koma á ný inn í bæjarstjórnina.

Hjá Framsóknarflokknum og frjálsir er oddviti framboðsins, Ragnar Baldvin Sæmundsson, sá eini sem hefur setið sem bæjarfulltrúi áður en Liv Ase Skarstad hefur tekið sæti sem varamaður á síðasta kjörtímabili. Sædís Alexía Sigurmundsdóttir er ný í bæjarstjórn.

Hjá Samfylkingunni hefur oddvitinn Valgarður Lyngdal Jónsson reynslu af því að vera í bæjarstjórn en hann er að hefja sitt þriðja kjörtímabil en hann kom inn í bæjarstjórn árið 2014. Jónína Margrét Sigurmundsdóttir er ný en Kristinn Hallur Sveinsson tók sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn um mitt síðasta kjörtímabil þegar Gerður Jóhannsdóttir sagði sig frá verkefninu.

Hjá Sjálfstæðisflokknum er Einar Brandsson með lengstan starfsaldur í bæjarstjórn, en hann hefur verið s.l. 12 ár í bæjarmálunum. Líf Lárusdóttir og Guðm. Ingþór Guðjónsson eru bæði ný í bæjarstjórninni.

Á kjörskrá á Akranesi voru 5.691 og var kjörsókn 62,5% sem er talsvert minni kjörsókn en fyrir fjórum árum þegar kjörsóknin var um 70%. Alls greiddu 3.564 atkvæði í þessum kosningum á Akranesi.

Framsókn og frjálsir bætti töluvert við fylgi sitt frá síðustu kosningum og fékk flokkurinn 1.208 atkvæði eða 36,1 % og þrjá bæjarfulltrúa. Flokkurinn bætti við sig einum bæjarfulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum bæjarfulltrúa og er með þrjá bæjarfulltrúa. Flokkurinn fékk flest atkvæði af framboðunum þremur, eða 1.223 atkvæði og 36,1% atkvæða.

Samfylkingin fékk 959 atkvæði og 28,3% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa kjörna.

Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru alls 174, eða tæplega 5% greiddra atkvæða.

Bæjarstjórn Akraness verður því þannig skipuð á næsta kjörtímabili.

Framsóknarflokkurinn og frjálsir:
Ragnar Baldvin Sæmundsson, Liv Ase Skarstad, Sædís Alexía Sigurmundsdóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn:
Líf Lárusdóttir, Einar Brandsson, Guðm. Ingþór Guðjónsson.

Samfylkingin:
Valgarður Lyngdal Jónsson, Jónína Margrét Sigurmundsdóttir, Kristinn Hallur Sveinsson.