Alexander Örn setti fjögur Íslandsmet á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti



Skagamaðurinn sterki, Alexander Örn Kárason, náði frábærum árangri á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti í klassískum lyftingum sem fram fer í Suður-Afríku.

Alexander Örn, sem keppir fyrir Breiðablik, setti Íslandsmet í öllum þremur keppnisgreinum sínum í gær – og einnig Íslandsmet í samanlögðum árangri í -93 kg. flokki.

Alexander Örn lyfti 272,5 kg. í hnébeygju sem er Íslandsmet, 190 kg. í bekkpressu, sem er Íslandsmet, og 300 kg. í réttstöðulyftu, sem er Íslandsmet. Samanlagt lyfti hann 762,5 kg. sem er einnig Íslandsmet í -93 kg. flokki. Alexander Örn bætti samanlagðan árangur sinn um 25 kg. og endaði hann í 17. sæti á þessu sterka móti.

Alexander Örn náði 100,2 GL stigum sem er notað af Alþjóða kraftlyftingasambandinu, IPF. Aðeins tveir aðrir íslenskir keppendur hafa náð þriggja stafa tölu á þessum kvarða – Kristín Þórhallsdóttir, sem keppir fyrir ÍA og er ríkjandi Evrópumeistari í sínum þyngdarflokki, og Júlían J. K. Jóhannsson sem er í fremstu röð á heimsvísu í kraftlyftingum.