ÍA semur við Kristian Ladewig Lindberg



Kristian Ladewig Lindberg er nýr leikmaður hjá karlaliði ÍA í knattspyrnu. Lindberg er 28 ára og kemur hann frá liðinu Nyköbing.

Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA segir í viðtali við fotbolti.net að framherjinn hafi æft með ÍA nýverið í framhaldinu hafi verið ákveðið að semja við leikmanninn.

Lindberg mun að öllum líkindum leika sinn fyrsta leik þann 4. júlí þegar ÍA mætir liði Leiknis í Bestu deild karla.

Lindberg hóf ferilinn hjá Nordsjælland og hefur leikið á fimmta tug landsleikja með yngri landsliðum Danmerkur. Hann hefur einnig leikið með Lyngby og Roskilde í heimalandinu og Atletico Baleares á Spáni.

Töluverð meiðsli hafa verið í herbúðum ÍA á þessu tímabili. Framherjinn Viktor Jónsson hefur ekkert leikið með ÍA frá því á undirbúningstímabilinu. Varnarmaðurinn Aron Jósepsson er einnig meiddur og ekkert leikið með ÍA í síðustu leikjum. Alex Davey, varnarmaður ÍA, fór meiddur af leikvelli í gær þegar ÍA lék gegn Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar þar sem að Blikar lönduðu 3-2 sigri. Danski leikmaðurinn Christian Wöhler var ekki í leikmannahópnum í gær vegna meiðsla.