Rúmlega 1100 einstaklingar tóku þátt í skoðanakönnun sem Samgöngufélagið stóð fyrir – þar sem að spurt var um þá tillögu að færa þjóðveg 1 milli Hvalfjarðarganga og Borgarness vestur fyrir Akrafjall og yfir Grunnafjörð.
Alls tóku 1.127 þátt. Á kvarðanum 0-6 fékk tillagan um þverun Grunnafjarðar 4.23.
Talan 0 táknar mjög andvíga, 3 hvorki né og talan 6 mjög hlynnta.
Brú yfir mynni Grunnafjarðar myndi stytta leiðina milli Akraness og Borgarness um sjö kílómetra..
Einnig spurði Samgöngufélagið um tillögu að færa þjóðveg 1 um Borgarnes út á vegfyllingu utan við byggðina. Sú tillaga fékk 5,06 á kvarðanum 0-6. Rétt um 1000 einstaklingar svöruðu þeirri spurningu. Sami kvarði var notaður, þar sem talan núll táknar mjög andvíga, talan 3 hvorki né, og talan sex mjög hlynnta.
Jónas B. Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, segir í viðtali á Stöð 2 að könnunin sýni verulegan stuðning við að hringvegurinn verði færður út úr þéttbýlinu í Borgarnesi. Íbúar í Borgarnesi sögðust þó andvígastir slíkri færslu vegarins meðan íbúar utan Borgarbyggðar voru hlynntastir Hin spurningin, um þverun Grunnafjarðar, hlaut allmikinn stuðning, að mati Jónasar. Íbúar á Akranesi reyndust hlynntastir slíkri færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall en með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness um sjö kílómetra.